Skírnir - 01.09.2017, Page 235
499íslenska eða ís-enska
við getum áskilið skýran framburð og framsögn. Við getum fylgt
eftir fyrirmynd annarra Norðurlandamanna og elt enskumenn í
flestu eða öllu. Við getum valið og hafnað. Við getum framfylgt
hófsamri hreintungustefnu, iðkað nýyrðasmíð áfram en jafnframt
opnað fyrir erlenda orðstofna að vísvituðu vali. Sjálfsagt eru
valkostirnir fleiri, en lífið finnur sér braut. Hér þarf undirbúning,
vandvirkni og hyggindi.
En ekki má gleyma því að þjóðerniskennd, stolt og metnaður
eru þjóðarnauðsyn fámennu samfélagi. Slíkt samfélag verður að
setja sér sameiginleg markmið. Í þessum efnum eru vitund, ásetn-
ingur og vilji forsenda, upphaf og orkugjafi. Heilbrigð þjóðernis-
kennd, stolt og metnaður beinast að eigin eflingu en ekki gegn
öðrum þjóðum eða samskiptum við þær. Sjálfsmynd og sjálfsleit
samfélags — og árangur hennar — er forsenda þess að samfélagið
standist. Menn átta sig ekki á því meðan vel gengur að ekkert
mannfélag lifir án sjálfsvitundar, án markmiða, án trúar á sjálft sig,
án sammælis og vilja til að halda áfram.
Í þessu hafa bókmenntir, skáldskapur, leiklist og önnur list-
sköpun leikið undirstöðuhlutverk í sögu þjóðanna. Þær hafa kveikt
og myndað samvitund þjóðfélagsins, mótað hana og þroskað. Þær
hafa kveikt og myndað erfðastofninn, sjálfsmyndina sem vekur og
elur þjóðarmetnaðinn og það þjóðarstolt sem er klöppin undir
húsinu. Á slíkum kletti hafa íslensk þjóðmenning og íslensk
þjóðerniskennd ævinlega staðið — og staðist. Að sama skapi verður
hlutverk höfunda og sköpuða þjóðarinnar úrslitamikilvægt ef ætlun
okkar verður sú á næstu árum að taka í taumana.
Nú er spurt hvort íslensk stjórnvöld, uppeldis- og menntastofn-
anir þjóðarinnar, fjölmiðlar, höfundar, listafólk, fræðimenn, ábyrg-
ur almenningur og almannasamtök hafi áhuga, vilja og metnað til að
sinna þessum verkefnum. Stíflurnar virðast vera að bresta, en síðan
fellur skriðan niður hlíðar og yfir farvegi. ,,Stafrænn dauðdagi
íslenskunnar“ kunna að vera fljótræðisorð þar eð íslenskunni hefur
varla enn verið búin stafræn fæðing. En að sama skapi eru hrunið og
ósigurinn þá vís ef ekki verður þegar að gert. Brátt verður orðið of
seint að hafa skoðun eða vilja til að velja eitt en hafna öðru. En hér
þarf engan æsing, fjandskap, mismunun, útilokun eða ofstæki.
skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 499