Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Síða 7
B r ý r o g h i m n a r
TMM 2018 · 2 7
Hægt er eins og fyrr segir að nálgast höfundarverk Þorsteins úr ýmsum
áttum. Hefur til dæmis verið nógsamlega fjallað um hann sem borgfirskt
skáld og skoðaðar vísanir hans í bókmenntir þess frjóa héraðs, sögu og fagra
náttúru – fyrir utan það hvernig hann yrkir til forvera sinna úr héraðinu?
Við getum líka reynt að elta það hvern hann ávarpar hverju sinni í ljóðum
sínum en honum er óvenju tamt að nota persónufornöfnin – við, þið, vér
og þér, ég og þú – svo að við fáum ýmist þá tilfinningu að verið sé að segja
kærum vini mildilega til syndanna eða hugga hann – eða skoða eigin hug.
Ástarljóð Þorsteins eru mörg og ævinlega áhrifamikil og það má skoða
þau sérstaklega og hvernig hann miðlar einkalegum tilfinningum sínum; er
í rauninni opinskár – þetta dula skáld – og reiðubúinn að hugleiða hagi sína
og innstu kenndir undanbragðalaust í ljóðum, sem krefja hann um slíkt.
Náttúruljóðin er hægt að skoða frá fyrstu tíð; hvernig hann notar vatnið
– lækinn og árnar, mýrarnar, tjarnirnar og vötnin – ævinlega til að gefa
ljóði sínu lífsmagn eða gefa til kynna þrá. Fjöll koma líka víða fyrir í ljóðum
hans, oft sem fulltrúar hins þögla almættis, þess sem er bæði óforgengilegt
og síbreytilegt:
Fjall sem þú ert að skoða og fást við hefur margar hliðar og fleti; þú gengur umhverf-
is það, klífur það og kannar hvert drag, hvern dýjakrók, hverja skriðu, einkum með
tilliti til greiðfærra leiða. Þó er fremur ólíklegt að þú bindir mesta tryggð við þá
staði þar sem uppgangan er auðveldust og ferðalangar leita helzt útsýnis. Því fjall
er merkileg eign: þegar alls er gætt sérðu fjall einungis frá þeirri ógleymanlegu hlið
sem þér var gefið það.
(„Fjall“, Fiðrið úr sæng Daladrottningar, Ritsafn, 305)
Hann notar iðulega steininn til að lýsa sjálfum sér – tilfinningu sinni fyrir
eigin stöðu í íslensku menningarlífi:
Efst á hvolnum
stakur, veðraður steinn.
Stöldrum við og nemum undarlegt skraf
dáinnar tungu sem biður við undirleik báru
að eyru vor þjökuð af rausta og rasta glym
leggi hlustir við kviðlingi, kveðnum í eldi
forðum daga …
Hér vísar í staðinn steinn
staðinn þar sem ljóð var kveðið í eldi!
Viðnámslegur í fasi …
Stakur steinn.
(„Þjóðminjar“, Urðargaldur, Ritsafn, 473)
Og hann yrkir aftur og aftur um veður: „Veður / eru mér jafngildi veraldar /
sem ég kanna af varúð“ („Veður“, Veðrahjálmur, Ritsafn, 215)