Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Síða 22
F r í ð a Í s b e r g
22 TMM 2018 · 2
Fríða Ísberg
Undanhlaup
28. nóvember 2016
Kæri Stari,
það er blindöskubylur í firðinum, ég gisti í húsi sem er ekki mikið
á dýptina en breitt meðfram götunni. Þetta er skringilegt hús. Í gær
mældi ég flötinn á því í föðmum og það eru ekki nema tveir faðmar frá
bakhlið til framhliðar en heilir 14 niður meðfram ganginum. Minnir
á dúkkuhús eða a.m.k. tilfinninguna þegar hægt er að opna dúkkuhús
og það er óþægilega grunnt. Ef einn faðmur er hæðin á sjálfri mér þá er
gangurinn rétt tæpir 25 m á lengd. Eins og stöðluð sundlaug. Mér var
sagt að húsið hafi fyrst verið kaupfélag, síðan skjalasafn, en núna sé það
einn af bústöðum Rithöfundasambandsins. Gólfið er gróft, úr eik, og
upp ganginn tel ég sjö litlar ljósakrónur, yfir hverri trónir rósetta. Húsið
er byggt 1907, það byggingarár sem mér finnst ég oftast sjá á gömlum
húsum á Íslandi. 1907 eða kannski 1926.
Út um bakglugga hússins sé ég ekkert nema snjókornin sem fljúga næst
rúðunni, handan þeirra veit ég samt að liggja haf og himinn, kramin hvort
að öðru. Í gegnum rúðurnar á framhlið hússins sé ég lengra út, ljósa-
staurarnir sýna ráðleysið í vindinum, hvernig haglið hendist í allar áttir
og getur ekki ákveðið sig. Oftast finnst mér það streyma upp.
Einstaka sinnum finnst mér ég heyra einhvern öskra innst innan úr
óveðrinu, en ég er fljót að hrista slíkar hugsanir af mér. (Vissirðu að
lýsingarorðið fljót er dregið af nafnorðinu? Í germanskri orðasifjabók
er fljótr bein vísun í fljót eða það að fljóta. Þetta er svo yndislega ljóð-
rænt: Ég verð fljót.)
Ég dvel á annarri hæð hússins, sem er eitt opið rými og fæ það út af
fyrir mig. Í suðurendanum er þægilegur legubekkur sem ég sef á og við
hliðina á honum stendur skrifborðið sem ég sit nú við. Í hinum enda
hæðarinnar er gömul eldhúsinnrétting, lítið borð með tveimur tálg-
uðum stólum, álketill, vikugamalt brauð sem ég mun ekki borða en hef
ekki samvisku í að henda.