Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Side 40
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
40 TMM 2018 · 2
skipulagður og í fyrsta sinn á ævinni átti ég erfitt með að lesa, gat ekki inn-
byrt þetta allt og ekki á þennan hátt; það var einsog að láta neyða í sig mat,
og allt í einu skildi ég að ég vildi vera sú sem skrifaði bækurnar, ég vildi vera
einsog skáldin sem við heyrðum um í bekknum, ég vildi vera D.H. Lawrence.
Þegar ég var lítil hélt ég að það að vera listamaður kæmi af sjálfu sér, væri
auðvelt og náttúrulegt. Eftir að ég lauk námi vissi ég að ég vildi verða rithöf-
undur en vissi ekki hvernig maður færi að því og skildi ekki að maður bara
settist niður og skrifaði. Ég hélt það gerðist eitthvað sérstakt, svona einsog
maður yrði útvalinn eða fengi einhvers konar boð.
Á ferðalögunum og í alls konar vinnum eftir skóla gekk ég alltaf með
skissubók á mér. Ég var léleg til vinnu, oftast timbruð, sífellt rekin og vissi að
þó ég hefði farið í háskóla væri raunverulegt líf mitt ekki hafið. Á einhverjum
tímapunkti skildi ég svo að ljóðin sem ég orti í vinnunni voru raunverulega
vinnan mín – að ljóðin væru vinna mín en ekki vinnan – og þá varð ég
frjáls. En ég þurfti að fara í gegnum einhvers konar helvíti fyrst. Má bjóða
þér meira kaffi?
Nei takk. Þetta er alveg frábært.
Hvernig ég skipulagði líf mitt?
Já. Sækir þú áhrif meira í bandarískar bókmenntir en aðrar og bókmenntir
á öðrum tungumálum?
Ég held ekki, ég elska hreindýrabókina þína, Clarice Lispector, Halldór
Laxness, Thomas Bernhard, Violette LeDuc, Bruno Schulz. Ég myndi halda
að flestir uppáhaldsrithöfundar mínur væru ekki bandarískir.
Gerir þú greinarmun á bandarískum, evrópskum, asískum, afrískum,
suðuramerískum bókmenntum?
Endanlega ekki, nei. Ég hverf inní nýja bók einsog inní völdundarhús.
Uppáhalds nýja bókin mín heitir Fifteen Dogs og er eftir kanadískan höfund,
Andrei Alexis.
***
Hvað meturðu mest í fari annarra?
Undarlegheitin þeirra, skrítileikann, hlutina sem þeim líkar, gleði annarra.
Hvað meturðu minna í fari annarra?
Fyrirlitningu þeirra, kvíða gagnvart ókunnugum, löngunina í hið fyrir-
sjáanlega og slétta og fellda yfirborð. Mér líkar illa ef fólk væntir þess aðeins
að þú sért aðlaðandi og í góðum málum, sterk og valdamikil á öllum tímum
en ekki óörugg. Ég vil geta verið breytileg, lítil í mér og myrk. Einu sinni átti