Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Page 58
K a r l Á g ú s t Ú l f s s o n
58 TMM 2018 · 2
næsta sem ég vissi var að Þorvaldur kom holdvotur og hattlaus niður um
gatið. Skipið var ekki fyrr komið á réttan kjöl en það tók að halla ískyggi-
lega á bakborðshliðina. Þorvaldur skipaði mér að hafa hraðar hendur og
ég hugðist steypa yfir mig stakknum, en þá stöðvaði hann mig og sagði
að ég hefði ekkert upp á dekk að gera – nú yrðum við að hafa hraðar
hendur við að bjarga plöttunum.
Mér varð það ljóst síðar að líklega hefur hann verið búinn að hugsa
þetta ráð. Að minnsta kosti var hann undarlega skjótráður. Eftir fyrir-
mælum hans lögðum við plattana, alla tuttugu og sjö, flata á dýnuna
mína, lögðum síðan dýnuna úr koju Þorvaldar ofan á og bundum utan
um með snæri. Skipið valt og skoppaði eins og korktappi og áður en
okkur tókst að ljúka þessum björgunaraðgerðum höfðu fjórir plattar
splundrast ýmist á gólfi eða vegg. Það voru Forventning til den komm-
ende julenat, Spurvenes andakt, Interiør fra en gotisk kirke og Den gamle
organist. Eftir þetta héldum við báðir upp á dekk til að berja ísingu af
vírum og stögum uns við náðum inn á Ísafjarðardjúp og gátum lagst í
var.
Ef til vill tengdi þessi atburður okkur Þorvald nánari böndum en áður
hafði verið. Það kemur þó ekki við þessa sögu og því óþarft að velta
vöngum yfir því.
Þorvaldur hvatti mig til að skrifa Dýrfinnu frænku minni og þakka
henni hugulsemina að senda mér ævinlega jólaplatta Bing og Grøndahl,
láta hana vita hve kært þetta safn væri orðið mér, einkum vegna þess
hve það tengdist minningu Guðríðar systur minnar. Jafnframt vildi Þor-
valdur að ég léti vita af þeim afföllum sem orðið hefðu og að ég tilgreindi
hvaða plattar hefðu glatast á undangengnum árum.
Vorið 1927 barst mér böggull frá Kaupmannahöfn, stærri en ég átti
að venjast. Í honum voru allir plattarnir sem nú vantaði í safn mitt og
taldist það því heilt og óskert, alls þrjátíu og þrír plattar. Kasper rakari
var þá látinn, blessuð sé minning hans, og Dýrfinna frænka orðin ekkju-
frú Tyffing. Í bréfi hennar lagði hún áfram hart að mér að heiðra minn-
ingu foreldra minna og systkina og gæta vel þeirra verðmæta sem hún
hefði nú um árabil fengið mér til varðveislu.
Jón forseti lá við bryggju í Reykjavík þegar sendingin barst og við
Þorvaldur stilltum öllu safninu upp á kojur okkar og skipsfélaga okkar í
réttri tímaröð, fægðum hvert stykki og virtum fyrir okkur lengi kvölds.
Okkur þótti sem við værum enn að taka eftir smáatriðum á einstökum
plöttum sem við hefðum aldrei veitt athygli áður.
Nú er ekki svo að skilja að í bréfum mínum til Bing og Grøndahl tíni
ég til allt það sem hér fer á undan. Þvert á móti reyni ég að halda mig