Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Side 88
A u ð u r S t y r k á r s d ó t t i r
88 TMM 2018 · 2
Auður Styrkársdóttir
Á barmi Gleðinnar
Hér segir af sundferð í Vesturbæjarlaug,
Vinum Dóra, Foringjanum, Müllersæfingum,
Þórbergi Þórðarsyni og Jörðinni
Það eru engir túristar í Vesturbæjarlaug þegar ég mæti klukkan sjö. Þetta er
fullsnemmt fyrir þá, sem betur fer. Þeir eru annars farnir að fylla pottana á
daginn með sínum óþvegnu líkömum og háværa skvaldri og valda okkur,
hinum innfæddu, ómældri hneykslan. En það er efni í aðra sögu sem ég vil
ekki blanda inn í þessa. Hér heilsa ég ungu stúlkunni í afgreiðslunni sem
brosir fallega til mín, ekkert syfjuleg til augnanna þótt snemma sé morguns.
Ég geng yfir í útiklefa kvenna, klæði mig úr fötunum, þvæ mér undir sturtu,
klæði mig í sundbol og held til laugar vopnuð sundhettu og þykkum sund-
gleraugum. Hoppa út í vatnið og sýp hveljur af ánægju.
Hitamælirinn á vegg Vesturbæjarlaugar sýnir rúm fjögur stig í plús.
Þegar ég steig út úr húsinu mínu rétt áðan tók á móti mér í þéttu myrkrinu
dýrðarinnar fuglasöngur, eins og þegar lífið vaknar að vori. Veturinn er
horfinn og jörðin orðin mjúk og geymir í sér hita síðasta sumars. Fuglarnir
hoppa glaðir milli trjágreina og spjalla við nágranna hárri fuglaraustu. Túlíp-
anar og krókusar eru farnir að stinga sér upp í görðum, gerðu það reyndar
strax í desember, en skruppu saman í hryðjunum í janúar. Síðustu daga hafa
þeir hins vegar sogað til sín næringu úr moldinni og teygja nú græna brodda
til himins, fullir sjálfstrausts, hærra með hverjum deginum sem líður. Er
þetta merki um hlýnun jarðar? Jafnvel miklar loftslagssbreytingar?
Ég syndi tólf ferðir og er nýkomin að bakkanum úr síðustu ferðinni þegar
sjálft Kallið gellur við:
„Viiiiiiiiiiiiiiiiiilllllbooooooooooooorggggg g g g!“
Tveir menn hlaupa æpandi hlið við hlið upp úr Nýja pottinum og hringinn
í kringum heitasta pottinn áður en þeir demba sér ofan í hann og þagna þá
loksins. Á eftir þeim koma tveir til þrír aðrir sem taka undir Kallið en fara
sér öllu hægar. Eldri og ráðsettari. Nú er að hefjast sjónarspil sem er það
íslenskasta sem ég hef komist í kynni við um ævina. Það er svo íslenskt að ef
máltilfinning mín og strangt uppeldi á því sviði bannaði mér það ekki myndi
ég hafa íslenskasta með stóru Í-i.
Ég sting mér undir plastsnúrurnar sem marka sundbrautir og hífi mig upp