Tímarit Máls og menningar - 01.02.2004, Qupperneq 73
Neikvæðið í tilverunni og tímunum
Þér skal verða bundin við hundsrófuna ryðguð pjáturdós
og þú skalt drösla henni út um holt og móa, út um lautir og kjörr
þangað til þú hefur lært að fela rófuna milli lappanna,
milli lúsugra hundslappanna eins og hundur.
Ég vík nánar að inntaki ljóðsins og skáldskaparaðferð síðar, en sennilega
er þetta það ljóð Sigfúsar sem mest hefur hneykslað lesendur hans. Ólík-
legustu menn hafa reyndar í mín eyru talað um mannfyrirlitningu
skáldsins í bjartsýnisljóðunum, ekki síst þessu, eða sagt sem svo að þau
væru ekki annað en ólundarnöldur.23 Sjálfum hafa mér alltaf þótt þessir
dómar fólks um heimsósómakvæði Sigfúsar furðulegir. Það einkennir
þau öll að tónninn í þeim er fullkomlega einlægur, það er að segja: Sigfús
yrkir þau í fullri alvöru, ljóðin eru til orðin af þörf, reiðin er sönn og
mjög fjarri því einmitt að vera nöldur eða sjálfsvorkunn.
En það er einsog sumum finnist að skáld eigi einungis að yrkja lof-
söngva til jarðarinnar, heimurinn sé góður og ef einhver sé á öðru máli
þá eigi sá hinn sami að sýna þá kurteisi að þegja um það, eða minnsta-
kosti að spara sér öll fúkyrði. Sigfús komst ungur á þá skoðun að mikil-
vægi ljóðs fyrir lesanda færi eftir því hversu miklu það hefði skipt skáld-
ið sjálft: „... var það skrifað af bráðum lífsháska ellegar þá af fullum
fögnuði lífsins: hvaða einlægur sannleikur lá að baki og hversu nálægt
þeim sannleika kemst skáldið með þeim ófullkomnu tækjum sem því eru
látin í té?“24 Og hálfum fjórða áratug síðar skrifaði Sigfús í ritgerð um
Stein Steinar: „Ekkert skáld sem nokkuð kveður að held ég geti látið hjá
líða að yrkja um neikvæðið í tilverunni og tímunum.“25 Vissulega orti
Sigfús um þetta neikvæði, einkum á miðhluta skáldferils síns í bókunum
Fá ein Ijóð og Útlínur bakvið minnið. Hann orti um það af mikilli ástríðu
og orðkynngi, og það varðaði hann greinilega miklu að takast á við það.
En umfram allt fáum við í ljóðum Sigfúsar sýn á margbreytileika lífsins.
*
Síðasta bjartsýnisljóðið er af öðru tagi en hin enda ort mun seinna. Af fá-
einum drögum í Grænukompu frá árinu 1986 má ráða að það sé með
yngstu ljóðunum í Útlínum bakvið minnið, og gæti því hugsanlega verið
allt að því tuttugu árum yngra en hin bjartsýnisljóðin. Raunar er það svo
ólíkt þeim að sú spurning hlýtur að vakna hversvegna Sigfús skipaði því
með þeim en lét það ekki standa á eigin fótum ef svo mætti að orði kveða,
því það gat það vissulega gert.
TMM 2004 • 1
71