Tímarit Máls og menningar - 01.02.2004, Page 113
Þjóðlegt flóð?
lega minnugir á þá pústra sem hann veitti sjálfur. En í Borgum og eyði-
mörkum er semsagt íjallað um nokkra daga í lífi Kristmanns meðan á
frægum réttarhöldum við Thor Vilhjálmsson stóð árið 1964. Sagan er ekki
eindregið varnarrit fyrir Kristmann eins og ætla mætti. Og hún er að því
leyti ólík Höfundi íslands að hið menningarsögulega samhengi verður
smám saman það sem vekur minnstan áhuga manns. Öllu áhugaverðari
er persónusköpunin í sögunni. Sá Kristmann sem þar birtist er bitur og
ósveigjanlegur og blindur á eigin galla. Líkt og í öðrum verkum Sigurjóns
verður þó algert íroníuleysi til þess að gera söguna þrúgandi og eintóna.
Umræðan sem reynt var að starta í kjölfarið þar sem heimtað var að
Thor Vilhjálmsson stæði fyrir máli sínu og tæki þátt í einhverju uppgjöri
fannst mér alveg út í hött. Hún var eins og eftirlíking af eftirlíkingu, til-
raun til að endurtaka lítið breytta þá arfavitlausu og leiðinlegu umræðu
sem spratt af Höfundi íslands.
Og þá komum við að Hallgrími Helgasyni. Hallgrímur hefur aldrei
endurtekið sig nema að einu leyti, allar skáldsögur hans, að þeirri fyrstu,
Hellu, undantekinni, eiga það sameiginlegt að þær hafa stuðning af eldra
bókmenntaformi sem er teygt, togað og skrumskælt á ýmsan hátt. Þessi
leikur við hefðina er svo notaður til að varpa ljósi á samtímann, hvort
sem það er ástandið í þeim andapolli sem kallaður er íslenskt menningar-
líf, tilvistarkrísa samtímamannsins í heimi tómra tákna eða arfur sveita-
menningarinnar í menningar- og bókmenntasögu tuttugustu aldar.
Herra Alheimur er auðvitað byggður á svolítið svipaðri formúlu þar sem
í hóp fyrirmyndanna Swifts, Shakespeares og Halldórs Laxness bætist
ameríska bíómyndin í öllu sínu veldi. Það klikkar ekkert í skopstæling-
unni frekar en fyrri daginn. Bestu sprettirnir í bókinni eru þegar verið er
að byggja upp heim himnaríkis þar sem sagan gerist að stórum hluta,
skipa í hlutverk og raða sálum saman í framhaldslífinu. En ég verð að
viðurkenna að ég sé ekki hvaða erindi allt þetta á við okkur. Það þarf ekki
lengur að sanna að Hallgrímur Helgason getur gert um það bil það sem
honum dettur í hug á ritvellinum og því miður finnst mér þessi bók ekki
sýna mér neitt annað. Það að Guð sé ekki dauður heldur bara svolítið
þreyttur er ekki sérlega merkt framlag til umræðu um stöðu trúar-
bragðanna og viðbrögð Guðs við nýjungum í erfðafræði varpa litlu ljósi
á vandamál sem fylgja vísinda- og tæknihyggju nútímans.
Það er áberandi hversu fáar skáldsögur komu út effir konur síðasta ár.
Ég þekki svo sem engar skýringar á því nema þá sem ég vona að sé rétt,
semsagt að íslenskar bókmenntir eru litlar og það þarf ekki stórar sveifl-
ur til að meiriháttar ójafnvægi komi í ljós. Ef þetta er rétt fáum við vænt-
anlega fjölda spennandi bóka eftir konur á næsta ári.
TMM 2004 ■ 1
111