Saga - 2016, Side 177
Í stuttu máli er sagan þannig að rétt fyrir aldamótin 1900 fannst austur
í Hólmi mannsgröf sem var talin vera heiðið kuml. Daniel Bruun kannaði
það árið 1902, en engin beinanna munu hafa varðveist og staðurinn, þar sem
kumlið fannst, var ekki merktur. eftir að Bjarni F. einarsson tók að kanna
Hólmsrústirnar leitaði hann að kumlstæðinu og taldi sig finna það á lágum
grasivöxnum hól um 230 metra frá bæjarrústunum. Uppgraftarfólk fletti
ofan af hólnum og fann stað þar sem var dreif af hellum úr líparíti sem virt-
ust hafa verið sóttar í fjall í grenndinni. Þar taldi Bjarni að kumlið hefði
verið. Við uppgröftinn fannst þarna rúst af litlu jarðhýsi, 2 × 2,16 m að flat-
armáli, sem hafði verið grafið 75 cm niður fyrir landnámslag. Það var þetta
hús sem Bjarni greindi sem blóthús. Í bókinni segir hann rækilega frá rann-
sókn sinni á húsinu og telur fram rök fyrir greiningu sinni (bls. 350–386).
Síðan kemur kafli með fyrirsögninni Eyrarlandslíkneskið og aðrir „hlutir“, um
efni sem tengist ekki blóthúsinu í Hólmi á annan hátt en þann að sum smá-
líkneski í líkingu við það sem fannst á eyrarlandi í eyjafirði kunna að hafa
verið taflmenn og í Hólmi fundust tvær þríhyrndar en myndlausar töflur
sem „geta hafa verið notaðar bæði í spilum á blót staðnum til afþreyingar
og/eða til að spá um óorðna hluti.“ (bls. 402). Þá er kafli um jarðhýsi á Ís -
landi (bls. 404–416) og annar um fornar og litlar kirkjur (bls. 417–426). Loks
er stuttur yfirlitskafli, Þýðing Hólms (bls. 427–434).
Um þetta efni hafa höfundur og útgefandi gefið út einkar glæsilega bók.
Ljósmyndir eru skýrar og í besta lagi upplýsandi. Þar er hafður sá eftir-
breytnisverði siður að taka jafnan fram, um myndir frá rannsóknarsvæðinu,
hvert sjónarhorn myndatökumanns snýr: „Horft mót norðnorðvestri.“
„Horft mót austri.“ (bls. 69–70). Þetta auðveldar ókunnugum lesendum
ótrúlega mikið að átta sig á sviðinu. Skýringarmyndir eru flestar afar skýrar,
með litum í þeim flötum sem skipta mestu máli. Spássíur eru 5,4 cm breiðar
og gefa lesendum því gott rúm til að krota við það sem þeir vilja geta fundið
seinna — eða til að gera gagnrýnar athugasemdir.
Varla verður sagt að landnám sé réttnefni þessarar bókar. Um landnám
Íslands almennt er nánast aðeins fjallað í köflum sem lúta að ritheimildum
um landnámið, siglingu til Íslands á víkingaöld og ástæðum Íslandsferða, á
bls. 107–152, og þar virðist mér að mestu stuðst við og treyst á nýlegustu rit
og rannsóknir, Sveinbjörn Rafnsson, Jón Viðar Sigurðsson, Sverri Jakobsson
og fleiri. Annars staðar, þar sem leiðin liggur burt frá Hólmi, er einatt farið
langt frá landnámi. Höfundur hefur sýnilega gaman af því að koma víða við
í sögu sinni. Við fáum að vita að það hafi líklega verið fyrir 200–400 þúsund
árum sem manneskjan náði tökum á eldinum (bls. 133). „Upp úr 600 byrjar
ferlið sem endar í smákonungaveldi og svo áfram í einveldi“ (bls. 142). „Á
19. öld stunduðu Norðmenn í Norður-Noregi ýmsar veiðar við Svalbarða
… og árið 1952 var rostungurinn friðaður …“ (bls. 142). Notað var þang og
þari til eldsneytis á Íslandi á 18. öld (bls. 224). Byggingarsaga Íslendinga er
rakin frá norskættuðum skálabyggingum víkingaaldar til steinsteypuhúsa
ritdómar 175
Saga vor 2016.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 17.5.2019 10:09 Page 175