Strandapósturinn - 01.06.2014, Blaðsíða 22
20
Um er að ræða safn sem byggt er neðanjarðar og þar er sögu
umsátursins lýst á einkar áhrifamikinn hátt með ljósmyndum,
mósaíkmyndum, myndbandssýningu, rituðum textum, hlutum
sem varðveist hafa og áhrifamikilli lampalýsingu. Ferð um safnið
lætur engan ósnortinn því að það er eins og hörmungarnar og
vosbúðin, sem almenningur og rússnesku hermennirnir máttu
þola, verði þarna svo einstaklega ljóslifandi og nálæg. Safnið var
því skoðað í þögn þar sem hver hugsaði sitt og eftir að út var
komið þá fylgdu tilfinningalegu áhrifin hópnum eftir í dágóða
stund. Fyrir utan safnið söng kórinn eitt lag til heiðurs þeim
hetjum sem safnið geymir minningar um. Þar sem dagskráin
var nokkuð þétt var ekki um annað að ræða en drífa sig að
rútunni og halda til sumarhallarinnar þar sem Pétur mikli og
Katrín dvöldu yfir sumartímann. Fyrir framan höllina er hinn
frægi Peterhof-gosbrunnagarður sem Pétur mikli lét gera vegna
áhrifa sem hann varð fyrir eftir að hafa skoðað Versalagarðinn í
Frakklandi. Það er ekki ofsögum sagt að garðurinn er hreinasta
listaverk með gosbrunnum sínum, trjám, blómum og stórum
grasflötum. Í garðinum tók kórinn lagið og þónokkuð margir
gestir stöldruðu við til að hlusta og sumir veltu greinilega fyrir
sér á hvaða framandi tungumáli þessi hópur var að syngja. Nú
var farið að halla degi og enn ein veislan að rússneskum hætti
var fram undan. Þegar komið var heim á hótel að kvöldi var
notalegt að sofna út frá góðum minningum um viðburðaríkan
dag.
Að morgni fjórða dags skein sólin glatt og nú var haldið til
fundar við hina látnu því að fram undan var að skoða þjóðar-
grafreit Rússa þar sem hvíla m.a. þekktir rithöfundar, málarar
og tónskáld. Við gröf tónskáldsins Tchaikovsky hefur myndast sú
hefð að þegar kórar eru þar á ferð þá taka þeir lagið við gröfina
og að sjálfsögðu söng kórinn þar eitt lag honum til heiðurs.
Það var dálítið sérkennileg upplifun að ganga um þennan garð
og virða fyrir sér minnismerki um alla þá frægu einstaklinga
sem þarna hvíla og lagt hafa svo mikið til lista og menningar
heimsins. Frá hvílu hinna látnu var ekið út í eyju sem er í
miðri borginni og umkringd virkisveggjum á alla vegu; þar er
að finna elsta hluta Sankti Pétursborgar sem er virki Péturs og
Páls. Á torgi í miðju virkinu stendur stór og glæsilega gullskreytt