Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Blaðsíða 39
Flokkur þgf-þf-sagna er einn sex ólíkra flokka fallmynstra með tveggja
andlaga sögnum í íslensku og aðrir flokkar en þgf-þf heimila ekki val-
frelsi í röð liðanna eins og þegar hefur komið fram. Mynstrið þgf-þf er
langsamlega stærst með á þriðja hundrað dæma en mynstrið þf-þf er
aðeins að finna með sögnunum kosta og taka (sögulega einnig læra), and-
spænis á bilinu 20–40 sögnum í hverjum hinna flokkanna fjögurra (sjá
t.d. Jóhannes Gísla Jónsson 2000:73 og Höskuld Þráinsson 2005:327).
(8) a. María sýndi Páli myndina. (þgf-þf)
b. Jón skilaði Páli bókinni. (þgf-þgf)
c. Sagan aflaði Pétri frægðar. (þgf-ef)
d. María svipti Pál titlinum. (þf-þgf)
e. Gunnar krafði Pál svara. (þf-ef)
f. Bókin kostaði Pétur aleiguna. (þf-þf)
Röðun (e. alignment) er hugtak sem er notað um aðgreiningu liða í beyging-
armynstrum af þessu tagi, annars vegar eftir því hvort þema (beina andlagið)
er aðgreint frá viðtakanda (óbeina andlaginu) og hins vegar hvort þema
og/eða viðtakanda er almennt haldið aðgreindum frá hefð bundinni táknun á
þolanda í viðkomandi máli (sjá t.d. Haspelmath 2005 og Malchukov o.fl.
2010, auk yfirlits um þessi merkingarhlutverk hjá Höskuldi Þráinssyni 2005:
320–321). Flestar sagnir í íslensku falla í flokkinn þgf-þf, eins og í (8a); þar
er þf-þema aðgreint frá þgf-viðtakanda og form viðtakanda er jafnframt að -
greint formlega frá því hvernig þolandi væri jafnan markaður beygingar -
fræðilega, þ.e. með þolfalli. Þessi flokkur er einn þriggja megin flokka röðun-
ar í málgerðarfræðilegu tilliti (sjá Malchukov o.fl. 2010:4–5); hinir flokkarnir
fela annars vegar í sér röðun þar sem viðtakandi er formlega aðgreindur frá
þolanda en þema er ekki formlega aðgreint frá viðtakendum, sbr. beygingar-
mynstrin þf-þgf og þf-ef í (8d,e), og hins vegar röðun þar sem þf-þf-liðir
eins og í (8f) eru hvorki aðgreindir formlega hvor frá öðrum né eru liðirnir
heldur formlega aðgreindir frá þolendum, sem stæðu einnig í þolfalli.5
Sögulegar breytingar á orðaröð 39
5 Sú röðun sem birtist með þgf-þf í (8a) er kennd við óbeina andlagið (e. indirective
alignment) og röðun með þf-þgf og þf-ef í (8d,e) virðist kennd við beina andlagið sem
síðari lið (e. secundive alignment). Ef (8a) væri nefnt óbein röðun mætti til samræmis e.t.v.
kalla (8d,e) beina röðun en hvorug þýðingin er heppileg.
Hlutlaus röðun (e. neutral alignment) eins og með þf-þf í (8f) felur ekki í sér neina
formlega aðgreiningu beina og óbeina andlagsins en hún á þó venjulega við um röðun í
málum sem auðkenna ekki hlutverk liðanna á beygingarfræðilegan hátt yfirhöfuð. Hlutlaus
röðun hefur því verið talin auðveldust eða „hagkvæmust“, þar sem venjulega væri þá byggt
á fastri línulegri röð til þess að greina milli rökliðanna tveggja frekar en fallmörkun.