Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Blaðsíða 72
með sterkum lýsingarorðum í fyrri lið hefur stofninn svo sama form og
nefnifallsmynd eintölu í kvenkyni, sbr. góðvinur og seinheppinn.
Það er þó ekki alltaf svo að stofninn komi fram með þessum hætti í
stofnsamsetningum og það gefur tilefni til ákveðinna vangaveltna um
stofnsamsetningar: Er stofninn í stofnsamsetningum beygður og hvernig
getum við komist að því? Er t.d. stofninn hest- í samsetningunni hesthús
merktur falli og tölu á sama hátt og hest- (þf.et.) í beygingardæminu hest-
ur? Ef ekki, hvernig er þá stofninn merktur og hvaðan kemur hann inn í
stofnsamsetninguna? Og ef stofninn er ekki beygður hvernig er þá hægt
að greina orðflokk hans? Á t.d. að greina stofninn kjaft- í samsetningunni
kjaftæði sem sögn (kjafta) eða sem nafnorð (kjaftur) og er einhver leið að
komast að því hvort annar hvor þessara möguleika á við?3
Sjónum er sérstaklega beint að óhljóðverptum stofnum ýmiss konar
og skýringargildi þeirra, þ.e.a.s. af hverju nær einungis óhljóðverptir stofn -
ar komi fyrir í stofnsamsetningum, nánar tiltekið af hverju t.d. stofninn
varð- komi fyrir í stofnsamsetningunni varðhundur (en ekki *vörð- sem
gæfi þá *vörðhundur). Á sama hátt er oftast valin óhljóðverpt mynd stofns -
ins í stað þeirrar hljóðverptu þegar stofnsamsetningar með sterkum lýs -
ingarorðum í fyrri lið eru myndaðar, sbr. flat- í stofnsamsetningunni flat-
bytna (*flötbytna).4 Fjarvera hljóðverpts stofns í stofnsamsetningum er
athyglisverð og verður nánar skoðuð hér á eftir.5
Munur stofn- og eignarfallssamsetninga er einnig til skoðunar hér. Á
yfirborðinu felst hann í því að fyrri liður eignarfallssamsetninga er beygður,
annaðhvort í eignarfalli eintölu eða fleirtölu, sbr. lækni-s(ef.et.)-hús og
Þorsteinn G. Indriðason72
3 Í greininni verða stofnar í stofnsamsetningum stundum merktir með beygingu en
það er nauðsynlegt að gera þegar greint er frá hugmyndum einstakra höfunda. Í 4. kafla má
hins vegar finna útfærslu á stofnsamsetningum í íslensku sem gerir ráð fyrir að stofninn sé
ekki merktur beygingarlega þótt hann samsvari í mörgum tilvikum ákveðinni beygingar-
mynd. Á sama hátt verða stofnar í stofnsamsetningum orðflokkagreindir til þess að
auðvelda og skýra umfjöllunina um nafnorð og lýsingarorð í fyrri liðum stofnsamsetninga,
sjá 3. kafla, þótt ekki sé einboðið hvort merkja eigi þá með orðflokki á þeim stað þar sem
þeir eru upprunnir, sjá 4. kafla.
4 Stofnsamsetningar með veikbeygðum fallorðum í fyrri lið eru sjaldgæfar, sbr. Kristínu
Bjarnadóttur (2005:130, nmgr. 37): „Þannig eru nafnorð sem beygjast veikt ekki fyrri hluti
í stofnsamsettum orðum, eins og sést af orðunum pennaljómi, *pennljómi, stelpu skott, *stelp -
skott. (Stofnsamsetningar af hjarta eru undantekning, t.d. hjartveikur […])“.
5 Finna má ýmsar stofnsamsetningar með ö í fyrri lið sem virðast undantekningar frá
þessu en oftast eru skynsamlegar skýringar til á því. Í stofnsamsetningu eins og lögbók er
lög fleirtöluorð og í lýsingarorðinu fölleitur er ö í föl stofnlægt, þ.e. það helst í öllum beyg-
ingarmyndum. Nánar er fjallað um ýmsar undantekningar og skýringar á þeim í kafla 3.6.