Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Blaðsíða 119
flokki með þáttinn [+mannlegt] sé horfin og að merkingarþátturinn hafi
færst yfir í lýsingarorðið við nafngervingu.
4.4 Samanburður á eldra og yngra máli
Þegar eignarfallssamsetningar með sterkum lýsingarorðum í fyrri lið í
eldra og yngra máli eru bornar saman má greina nokkur atriði sem hér
skulu rakin.
Í eldra máli samanstendur eignarfallshlutinn oftast af lýsingarorði og
nafnorði (t.d. sjúkramannahús). Undantekningar frá þessu, þar sem
eignarfalls hlutinn er einungis lýsingarorð, eru allar bundnar við orðið heil-
agr (t.d. heilagramessa) og í flestum þeirra fer fn. allra- á undan lýsingar-
orðinu (t.d. allraheilagramessa), sem hefur þó ekkert með sjálfa orðmynd-
unina að gera. Í þeim orðum sem hafa samsettan eignarfallslið, lo. + no.,
er nafnorðið yfirleitt -manna-. Helstu undantekningar eru nokkur orð
sem mynduð eru með heilagr/helgr og dagr (t.d. heilagradagahald, helgra-
dagabrot). Svipað gildir um orðastæðurnar sem urðu á vegi okkar í safni
ONP, en eru ekki skráðar sem flettur þar; meirihluti þeirra hefur manna
sem höfuðorð eignarfallseinkunnarinnar (t.d. heimskra manna ráð). Þessu
er þveröfugt farið í yngra máli. Þar er eignarfallshlutinn langoftast ósam-
settur (t.d. sjúkrahús), eða í um 95% tilfella. Þegar eignarfallshlutinn er á
annað borð samsettur í orðum í yngra máli er seinni hlutinn þó oftast
-manna-, eins og í eldra máli, enda má ætla að í mörgum og e.t.v. flestum
tilfellum séu þau arfur úr eldra máli frekar en nútímamálsorðmyndun.
Fornmálsdæmin sem okkur eru tiltæk eru að vísu mun færri en dæmi úr
yngra máli, en nokkuð ljóst er að krafan um að merkingarþátturinn
[+mannlegt] hafi sérstaka yfirborðsbirtingar mynd er fallin brott í yngra
máli, eða réttara sagt, hann er nú innifalinn í lýsingarorðinu eins og minnst
var á í inngangi greinarinnar, og virðist sem þetta sé ein helsta breytingin
frá eldra máli.
Hvorki í eldra né yngra máli virðist sjálfur eignarfallsliðurinn í form-
gerðum með -manna- vera eiginleg og sjálfstæð samsetning. Þar liggja
hvergi (að því er virðist) að baki samsett orð á borð við *dauðramaður eða
*sjúkramaður sem geta staðið sjálfstæð. Fyrri lið slíkra formgerða ber því
frekar að skoða sem setningarlið, tvíyrtar fyrirsettar eignarfallseinkunnir
(dauðra manna, sjúkra manna), en sem orðmyndunarlið. Þessar formgerðir
endurspegla því einhvers konar millistig milli setningarsviðs og orðmynd-
unarsviðs, „snúninginn“ frá eftirsettum einkunnum til fyrirsettra og svo
áfram til samsettra orða, þ.e. [[[sjúkra][manna]][hús]] > [sjúkrahús] o.s.frv.
Eignarfallssamsetningar með sterkum lýsingarorðum í fyrri lið 119