Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Page 129
ragnheiður jónsdóttir
Við bara „hvað er í gangi?“
Um orðræðuagnir sem inngangsorð í máli ungmenna
1. Inngangur
Meðal þess sem einkennir samtöl unglinga er leikræn tjáning eða svo-
kallaðar sviðsetningar (sjá t.d. Norrby 1997; Rathje 2011; Helgu Hilmis -
dóttur 2018, 2020).1 Í málfræðilegri umræðu kallast þetta venjulega bein-
ar ræður eða beinar tilvitnanir2 en hér á hugtakið sviðsetning betur við
enda er ætlunin sjaldnast sú að hafa eitthvað orðrétt eftir öðrum heldur
frekar að lífga upp á frásögnina, líkt og Tannen (1989:112) og fleiri hafa
réttilega bent á. Til þess að gefa til kynna að sviðsetningar sé að vænta í
samtali nota mælendur gjarnan svokölluð inngangsorð, einnig nefnd til-
vitnunarmerki (e. quotatives), en þau geta verið af ýmsum toga. Hlut -
lausar, lýsandi sagnir eins og segja, spyrja og svara hafa lengi verið áber-
andi í þessu hlutverki, en nú virðast orðræðuagnir eins og bara og eitthvað
orðnar algengari í máli ungs fólks og standa þá jafnvel fleiri saman (Helga
Hilmisdóttir 2020; Eva Ragnarsdóttir Kamban 2021).
Hér er ætlunin að kanna notkun inngangsorða á undan sviðsetningum í
máli ungmenna. Til þess hefur um 45 mínútna langt hlaðvarpsviðtal við
tvær stúlkur um tvítugt verið skráð og greint með aðferðum samtalsgrein-
ingar (e. conversational analysis), með hlustun og nákvæmri skráningu. Rann -
sóknarspurningarnar sem liggja til grundvallar eru eftirfarandi: Hvaða inn-
gangsorð koma fyrir í máli stúlknanna í samtalinu? Hver þeirra koma oftast
fyrir og hvers vegna ætli svo sé? Tilgangurinn með þessari grein er því að
varpa ljósi á notkun inngangsorða í íslensku og að ræða tilgátur um það
hvers vegna orðræðuagnir virðast notaðar í vaxandi mæli sem inngangsorð.
Íslenskt mál 43 (2021), 129–140. © 2021 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók merkir hugtakið sviðsetning annars vegar
‘það að setja leikið eða sungið efni á svið’ og hins vegar ‘endursköpun atburðar með skáld -
uðum samtölum og lýsingum’.
2 Í bókinni Íslenzk setningafræði eftir Björn Guðfinnsson (1938:42) kemur fram að
beinar ræður (e. direct quotation/direct speech) séu það „sem haft er orðrétt eftir einhverjum
— eða látið svo sem orðrétt sé“ en óbeinar ræður (e. indirect quotation/indirect speech) séu
því það „sem er ekki haft orðrétt eftir — né látið sem svo sé“.