Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Blaðsíða 120
Fram kom að fá dæmi er að finna í eldra máli um að lýsingarorðið
standi sem síðari liður eignarfallshlutans. Undantekningar eru orð sem
hefjast á allra- og margra-, sem trúlega er réttast að greina sem fornöfn
fremur en lýsingarorð, en í yngra máli eru ýmis dæmi um að fyrri liðurinn
sé samsett lýsingarorð í eignarfalli, t.d. daufdumbra (-kennari), heyrnar-
daufra (-bekkur), vitskertra (-hæli), vitlausra (-spítali). Er það á sinn hátt
eftirtektarvert, enda virðist það sýna skýra þróun og breytingu frá eldra
máli til yngra máls.
Bæði í eldra og yngra máli er áberandi hversu mörg lýsingarorðin sem
taka þátt í setningargerðinni/orðmynduninni bera í sér merkingarþætti
sem tengjast skorti, fötlun eða einhverju neikvæðu. Þetta skiptir ekki máli
fyrir sjálft orðmyndunarferlið (eða setningargerðina) en er eigi að síður
áhugavert í heildarsamhenginu. Þannig koma dauður, fátækur og sjúkur
fyrir sem fyrri liðir í samsetningum sem skráðar eru sem flettiorð bæði í
ONP og RMS og tvö þau síðari mynda langflestar samsetningar í yngra
máli. Önnur lýsingarorð sem bera í sér einhvern ofangreindra merking-
arþátta eru heimskur, illur, ranglátur, rangur, vondur og vesall, sem koma
fyrir í þeim orðastæðum sem urðu á vegi okkar í ONP (en ekki í skráðum
orðabókarflettum þar), og blindur, daufdumbur, geðvondur, heilbrigðislaus,
heyrnardaufur, hungraður, húsvilltur, munaðarlaus, (-)veikur, vitlaus og
vitskertur í yngra máli.
Hins vegar er þarna einnig að finna orð sem tengjast trú, þ.e. heiðinn,
heilagur, helgur, kristinn og trúlyndur, sem og orð sem tengjast löndum eða
uppruna: enskur, írskur, hvítur, þýðerskur, írskur, spanskur, þýskur. Auk
þessara koma fyrir í áðurnefndum orðastæðum lýsingarorð almennari
merkingar, sem tákna einhvers konar (hlutlausa) eiginleika, aldrænn, dug-
andi, dyggur, dýr, fár, forn, góður, hygginn, lendur, ríkur, tiginn og öflugur,
og einnig nokkrir slíkir í yngra máli, fullorðinn, hvítur, mennskur, myndug-
ur og skyldur.
5. Umræða og helstu niðurstöður
Í inngangi greinarinnar voru eftirfarandi rannsóknarspurningar settar
fram og reifaðar nokkuð.
(15) a. Hvar í málkerfinu eru samsetningar með lýsingarorði í eignarfalli
fleirtölu í fyrri lið upprunnar?
b. Hvaða munur er á þeim og eignarfallssamsetningum þar sem fyrri
liðurinn er nafnorð?
Veturliði Óskarsson og Þorsteinn G. Indriðason120