Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Blaðsíða 138
5. Niðurlag
Hér hefur verið fjallað um inngangsorð á undan svokölluðum sviðsetn-
ingum og sjónum sérstaklega beint að orðræðuögnum í því hlutverki.
Ljóst er að leikræn tjáning og tíð notkun orðræðuagna einkenna ung-
lingamál en á undanförnum árum hefur komið betur í ljós að slíkar agnir
eru notaðar í vaxandi mæli sem inngangsorð í stað sagna. Þörf er á frekari
rannsóknum til að skýra þetta og fylgjast með þróuninni í íslensku en hér
hafa nokkrar tilgátur verið ræddar.
Í þeim gögnum sem til skoðunar voru var algengast að mælendur
notuðu stakar orðræðuagnir sem inngangsorð og var bara þeirra algeng-
ust. Næst á eftir var eitthvað en blæbrigðamunur virðist vera á merkingu
þeirra. Þrátt fyrir að mælendur séu eflaust ekki mjög meðvitaðir um val
sitt á inngangsorðum þá virðist það síður en svo tilviljanakennt. Orð -
ræðuögnin eitthvað virðist til að mynda frekar notuð til að milda eða draga
úr ábyrgð þess sem endursegir á meðan bara tjáir meiri nákvæmni eða
festu. Í þeim tilfellum sem hlutlausar, lýsandi sagnir eins og segja og spyrja
koma fyrir þá standa þær yfirleitt með orðræðuögnum, mögulega til þess
að draga úr formlegheitum, en orðræðuagnir gera frásagnir líka talmáls-
legar og glæða þær þannig lífi. Notkun orðræðuagna sem inngangs orða
virðist vera hluti af alþjóðlegri unglingamenningu sem er komin til að
vera og það verður spennandi að fylgjast með þróuninni.
viðauki: skráningarlykill
(.) pása styttri en 0,5 sekúndur, (0,8) pása mæld í sekúndum (hér 0,8 sek-
úndur), [samhliða tal hefst, ] samhliða tali lýkur, :: langt hljóð (hver tví-
punktur táknar 0,1 sekúndu), £he he£ hlátur, @hvað er í gangi@ leikræn
tjáning, <barið> orð borið fram hægt.
heimildir
Androutsopoulos, Jannis. 2005. Research on youth language. Ulrich Ammon, Norbert
Dittmar, Klaus J. Mattheier og Peter Trudgill (ritstj.): Sociolinguistics: An interna-
tional handbook of the science of language and society 2, bls. 1496–1505. De Gruyter, Berlín.
Bakhtin, Mikhail. 1981. The dialogic imagination: Four essays. University of Texas Press,
Austin og London.
Björn Guðfinnsson. 1938. Íslenzk setningafræði handa skólum og útvarpi. Ríkisútvarpið,
Reykjavík.
Ragnheiður Jónsdóttir138