Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Blaðsíða 53
og miðlungsþungir sýna að gera verður ráð fyrir meiriháttar breytingum
frá forníslensku til nútíma í möguleikum á umröðun. Tímabil er enda
annar tölfræðilega marktækur þáttur í líkaninu (p<0,001) að teknu tilliti
til allra annarra þátta.
Sagnflokkur sýnir að sagnir sem fela í sér raunverulega tilfærslu á
einhverju til viðtakandans eru um tvöfalt líklegri til þess að taka umröðun
en aðrar og þessi munur er tiltölulega sterkt marktækur (p=0,026). Sagn -
flokkur hefur því marktæk áhrif enda þótt slembibreytan sögn hafi
verið byggð inn í líkanið í ljósi þess að jafnvel merkingarlega skyldar sagn-
ir geta haft ákveðna tilhneigingu til þess að vera móthverfar umröðun. Þá
er rétt að benda á að sagnflokkur er marktækur þótt þátturinn fall-
mörkun hafi einnig verið tekinn með í líkanið (sjá hér á eftir). Breytan
sagnflokkur hefur því marktæk áhrif umfram þann mun sem líklega
stafar af sérstökum eiginleikum einstakra sagna og/eða fallmynstri.
Ákveðni er breyta sem hefur ekki tölfræðilega marktæk áhrif, hvorki
þegar um er að ræða ákveðni beina andlagsins (p=0,435) né óbeina and-
lagsins (p=0,078). Þessar breytur hafa ekki heldur marktæk áhrif ef sam-
spil þeirra er kannað (p=0,251). Á mynd 4 í viðauka má sjá áhrif ákveðni
eftir öllum mögulegum mynstrum ([±ákv.óa, ±ákv.ba]) í hráu gögnun-
um. Þar sést að hlutfall umröðunar á tveimur elstu skeiðunum er umtals-
vert hærra þar sem bæði andlög eru óákveðin (físl. I = 48,3% og físl. II =
23,7%) en þar sem bæði eru ákveðin (físl. I = 31,8% og físl. II = 24,3%).
Á hliðstæðan hátt sýnir blandaða mynstrið [+ákv.óa, −ákv.ba] hátt hlut-
fall umröðunar (físl. I = 52,5% og físl. II = 34,0%) en blandaða mynstrið
[−ákv.óa, +ákv.ba] er of fátítt til að vera marktækt. Allar meginlínur í
þróun í tíma eru þó í grófum dráttum svipaðar með þessum mynstrum og
þar sem mynstrin greinir mest á eru gögnin jafnframt þynnst og eftir því
óáreiðanleg. Ekki er ólíklegt að ólík dreifing eftir ákveðni skýrist í megin -
atriðum af þyngd liðanna en þetta atriði mætti rannsaka nánar.
Síðasta breytan í líkaninu sem rétt er að nefna er fallmörkun lið -
anna. Eins og lýst hefur verið í málfræðilegum skrifum er umröðunar
tæplega að vænta með öðrum fallmynstrum en ómarkaða mynstrinu þgf-
þf. Þessi breyta hefur hins vegar ekki marktæk áhrif samkvæmt töl fræði -
legri greiningu (p=0,165) og tengist það mögulega því að dæmi um um -
röðun með mörkuðum fallmynstrum er sannarlega einnig að finna í gögn-
unum, gerólíkt nútímamáli. Dreifingin bendir eftir sem áður til lægra
hlutfalls umröðunar með þessum mörkuðu mynstrum eins og fyrir fram
var við að búast. Nánar er fjallað um dæmi af þessum toga og önnur í
næsta kafla.
Sögulegar breytingar á orðaröð 53