Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1977, Blaðsíða 58
56
dýrmætari sem lengur leið á ævina, einkum hinna öldnu, ef til vill
á hraðri leið til nýrra stranda, en handhafar dýrra minninga, sem
aldrei gátu gleymst, minninga, sem verið höfðu ævarandi eign,
höfðu fágast og fegrast, svo að birtu slær af, hið innra fyrir, og
á óstignu sporin, og ljómi þeirra haldist eins og steinanna í Gler-
hallarvík.
Það er vitanlega undir ýmsu komið hver áhrif bernskuminn-
ingar og aðrar dýrmætar minningar hafa á mennina. Svo hlýtur
það að vera og vafalaust eru þær þeim mis-dýrmætar, en ég vil
ekki trúa öðru en að allir hafi átt þær stundir, sem hafa vakið
hlýjar kenndir og haft bætandi áhrif. Orðið til gleði. Orðið stoð
eigin mannrækt. Og hvers skyldu menn þarfnast frekara ? Og ekki
síst nú á tímum.
Hverju manst þú fyrst eftir, lesari góður? Flestir reyna víst
að rifja það upp einhvern tíma á ævinni, látið hugann reika til
bernskuslóðanna. Og það hefi ég oft gert og því oftar sem leng-
ur leið á ævina, og nú í þessum minningum enn á leið þangað.
Gjarnan vildi ég, að þú yrðir eins konar ferðafélagi minn. Þetta
er nokkuð löng leið, en við förum hratt, og allar götur get ég
brugðið upp fyrir þér nokkrum svipmyndum. Og við skjótumst
þá í huganum á stað, sem þú þekkir mæta vel eða a. m. k. kann-
ast við, og það enda þótt þú sért ungur, kannske barn að aldri,
en ég er auðvitað eldgamall karl.
Staðurinn er Austurvöllur, en hann var þó nokkru stærri, þeg-
ar ég var í þennan heim borinn, en hann er nú. Hús foreldra minna
stóð við völlinn vestanverðan, tvílyft hús, mitt á milli Kvenna-
skólans gamla, sem heiðurshjónin Páll Melsteð sagnfræðingur og
Þóra Melsteð, kona hans stofnuðu, en það hús stendur enn, og
apóteksins gamla (Reykjavíkur apóteks), sem horfið er, eins og
hús foreldra minna, og eru þar nú hin miklu húsakynni Land-
símans. Foreldrar mínir voru Birgitta Guðríður Eiríksdóttir og
Steingrímur Thorsteinsson skáld, rektor Latínuskólans, sem ég
nefni hér sínu gamla nafni, sem hann æ var nefndur á þessum
tíma.