Milli mála - 2022, Page 122
MILLI MÁLA
Milli mála 14/1/2022 121
mannverum til menningar og lögbundins samfélags. Jafnframt grefur
þó skáldskapur sífellt undan áreiðanleika þessa miðils; dregur tákn-
kerfi hans í efa, bregður á leik með það,“18 segir Ástráður Eysteinsson
og beinir sjónum að tungumálinu sem efniviði og miðli skáldskapar
sem og veruleika í afar forvitnilegu, dýnamísku og stundum írónísku
sambandi. „Já, en ekki gleyma því að til þess að skrifa verð ég að
nota orðið sem meginefnivið. Og þess vegna verður þessi saga búin
til úr orðum sem safnast saman í málsgreinar og síðan stafar af þeim
dulin merking sem býr handan við orð og setningar“ (6). Hér rímar
skáldskapurinn við sköpun alheimsins, við samslátt sameinda, sam-
einingu orða þar til merkingin brýst fram, sem þó liggur handan við
miðilinn, tungumálið. Höfundurinn lítur heiminn augum, skyggnist
handan við ásýnd hlutanna og dregur fram í texta sinn eitthvað dulið.
Sköpunin er Rodrigo ekki auðveld, hann hefur gengið með þessa
sögu í maganum í dágóðan tíma, hún hrjáir hann eins og þrálátur
tannverkur; sögunni fylgir stöðugur trommuþytur sem hljóðnar þó
um leið og hann skrifar. „Nei, það er ekki auðvelt að skrifa. Það er
jafn erfitt og að brjóta steina. En það gneistar af og flísarnar fljúga
eins og leiftrandi stál (10),“ segir sögumaður sem veltir í sífellu fyrir
sér hvers vegna hann skrifi, hvað hann ætli að skrifa og hvernig. „Og
það er þegar ég hugleiddi að skrifa um raunveruleikann, þar sem
raunveruleikinn var svo fjarri mér. Hvað sem „raunveruleiki“ þýðir“
(9). Á vissan hátt skrifar hann sögu Macabéu til að yfirstíga eigin
takmörk og nálgast óræðan veruleika sinn með skrifunum.
„Áður en þessi ritari skaut upp kollinum í lífi mínu, var ég maður
og meira að segja nokkuð sáttur, þrátt fyrir lítilfjörlega velgengni
mína í bókmenntum“ (9). Þessi vélritandi persóna ryðst svo að segja
inn í tilveru hans og umturnar henni. Líkt og ástfanginn maður er
hann frá sér numinn af vesælli stúlku sem hann sá eitt sinn bregða
fyrir á götu úti. „Ég fann ekki upp á þessari stúlku. Hún þvingaði
tilveru sinni upp á mig (21),“ segir hann og gerir tilraun til að firra
sig ábyrgð á sköpunarverki sínu en viðrar um leið hugmyndir um
skáldskap sem framsetningu á veruleikanum sem hvílir öðrum þræði
á því að sjá í gegnum ásýnd hlutanna: „Stúlkan er sannleikur sem ég
kærði mig ekki um að vita. Ég veit ekki hvern ég á að ásaka en ein-
18 Ástráður Eysteinsson, „Hefur maður ást á skáldskap? Vangaveltur um konuna í textanum“, 454.
ARNÓR INGI HJARTARSON