Saga - 2020, Side 56
Saga kynverunda
Glíman við sjálfsmyndarhugtakið er ekki eingöngu bundin við
kvenleika og karlmennsku. Á sama tíma og kvennasagan varð til
sem pólitískt mótvægi við rótgróið karlaforræði sagnaritunar fóru
aðrir hópar að grennslast fyrir um sína sögu enda sagnaritun eitt
beittasta vopnið í baráttu minnihlutahópa fyrir jafnrétti. Samhliða
réttindabaráttu samkynhneigðra á Vesturlöndum fóru hommar og
lesbíur í auknum mæli að rannsaka og skrifa eigin sögu. Slík sagna-
ritun bar í fyrstu sterkan keim af markmiðum kvennasögunnar, það
er að segja hún snerist um að finna samkynhneigða einstaklinga í
sögunni til að styrkja eigin sjálfsmynd og réttlæta tilvist hópsins. Á
Íslandi var lítið skrifað um sögu samkynhneigðra þrátt fyrir að ákall
um að hreyfinguna skorti sögu hafi reglulega heyrst á níunda og
tíunda áratugnum.61 Með tilkomu rita sem komu út í tengslum við
Hinsegin daga á fyrstu áratugum tuttugustu og fyrstu aldarinnar,
sem og lokaritgerðum í sagnfræði og skyldum greinum, varð smám
saman til grundvöllur fyrir frekari rannsóknum.62
Árið 2017 kom síðan út greinasafnið Svo veistu að þú varst ekki hér.
Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi.63 Þar var unnið út frá
hugmyndum um hinsegin kynverund og á fræðilegum grundvelli
hinsegin fræða þar sem hugtakið kynverund (e. sexuality) var sett í
forgrunn. Með kynverund er átt við alla þá þætti, samfélagslega sem
og persónulega og líffræðilega, sem fylgja því að vera kynvera.
Sagnfræðingar á sviði sögu kynverundar (e. history of sexuality) nýta
hafdís erla hafsteinsdóttir54
61 Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, „„Forsenda fyrir betra lífi?“ Tilraun til skilgrein-
ingar á hinsegin sögu,“ í Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og
hinsegin saga á Íslandi, ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir (Reykjavík: Sögufélag, 2017), 21–56, hér 21–30.
62 Sjá til dæmis: Svandís Anna Sigurðardóttir, „Kynleiðréttingar á Íslandi: hug-
myndafræðin, sagan, réttindin,“ Sagnir 27 (2007), 52–60; Birta Björns dóttir, „Úr
felum: réttindabarátta samkynhneigðra á Íslandi,“ Sagnir 26 (2006), 92–99; Lbs.
– Hbs. Særún Lísa Birgisdóttir, „Hommar eða huldufólk? Hinsegin rannsókn á
sögnum og samfélagi að fornu og nýju“. MA-ritgerð í mannfræði við Háskóla
Íslands, 2014; Lbs. – Hbs. Helgi Hrafn Guðmundsson, „„Karlmenn faðmast og
kyssast eins og unnustufólk.“ Líkamleg nánd íslenskra karlmanna á nítjándu
öld“. BA-ritgerð í sagn fræði við Háskóla Íslands, 2015.
63 Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir,
ritstj., Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi
(Reykjavík: Sögufélag, 2017).