Saga - 2020, Blaðsíða 31
gefa sér að einhverju mikilsverðu leyti það sem sanna átti, það er til-
tekna skipulega og skynsamlega beitingu hugsunarinnar.3 Við þessa
þröng, þessa andstæðu hugsunar og veruleika sem Kant skildi eftir
sig þvert á fyrirætlun sína, máttu arftakar hans kljást og fyrir þeim
hlaut að liggja að losa sig á einhvern hátt úr henni. Sú leið sem arf-
takarnir fundu fólst í greinargerð fyrir því hvernig hugsunin gæti
sannarlega fótað sig í veruleikanum því það hefði hún raunar gert
frá alda öðli. Fyrsta atlaga Hegels að lausn á vandanum var stórvirki
hans Fyrirbærafræði andans (1807). Því verki var ætlað að lýsa sögu-
legri framvindu hugsunarinnar allt frá því hún kemur fram í heim-
inum í hinni einföldustu og óbrotnustu mynd og þangað til hún nær
að lokum tökum á þeirri óumflýjanlegu staðreynd að hún stendur í
mótsögn við heiminn og skilur að í þessu mótsagnakennda eða
díalekt íska sambandi, og ræktun þess, er sannleikur hennar fólginn.
Jafnframt skilur hún hvernig þessi sami sannleikur reynist, þegar að
er gáð og til kastanna kemur, vera sannleikur um heiminn sjálfan úr
því að hugsunin er jú einmitt skoðuð sem hluti af þessum sama
heimi en stendur ekki utan hans. Í þessu felst þá einnig að það er
marklaust að spyrja hvernig hugsunin væri án heimsins, hvað hugs-
un án heims væri fyrir nokkuð: slík hugsun er ekki til, hugsunin
þarfnast heimsins til að geta starfað, hún getur ekki án hans verið.
Hvort snúa megi þessu við og fullyrða að heimurinn geti heldur
ekki verið án hugsunarinnar er svo sér í lagi áhugaverð spurning
sem varðar sjálfa stöðu mannverunnar í heiminum — er hún hin
eina og sanna hugsandi vera eða er hugsunin óbundin birtingu sinni
í mannverunni og hefði getað látið ógert að binda sig í henni? Í
þessu sambandi er rétt að benda á að Kant lét svo um mælt að allar
spurningar heimspekinnar mætti taka saman í þessari einu spurn-
ingu hér: Hvað er maðurinn? Og víst er að sú spurning leikur líka
lykilhlutverk í kerfishugsun Hegels (og auðvitað í flestallri heim-
speki).
Í formálanum að Fyrirbærafræði andans, sem kom út í íslenskri
þýðingu Skúla Pálssonar 2019, skrifar Hegel:
hvað eru sögulegir tímar? 29
3 Þessi gagnrýni á Kant kom fram á sjónarsviðið um leið og hann birti kenningar
sínar, og tók á sig ýmsar myndir. Samtímamenn hans á borð við Hamann og
Jacobi gagnrýndu hann t.d. fyrir að kalla guðleysi yfir alþýðu manna og litu á
hann sem stórhættulegan tómhyggjumann. Sjá ágæta greinargerð hjá Simon
Critchley, Continental Philosophy: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford Uni -
versity Press, 2001), 2. kafla.