Náttúrufræðingurinn

Árgangur

Náttúrufræðingurinn - 2023, Síða 21

Náttúrufræðingurinn - 2023, Síða 21
2. mynd. Hauskúpur frá Íslandi sem Vilhjálmur Stefánsson gróf upp í kirkjugarði á Mýrum sumarið 1905. Ljósm.: Gísli Pálsson. Neanderdalsfólk varðar okkur öll meira en ætla mætti, og meira en nokkru sinni fyrr; erfðavísindin (m.a. rannsóknir á Ís- lendingum) hafa leitt í ljós að saga okkar er saga Neanderdalsfólks. Það vekur spurningar um okkur sem tegund og um skilin sem við setjum milli okkar og hinna, sem alltaf virðast vera á dagskrá (oft með formerkjum hörundslitar), hvernig þau verða til, hversu djúpt þau rista, og hvað þau merkja. Einhver kynni að spyrja af hverju ég finn mig knúinn að styðja fingrum á lyklaborð og taka saman pistil um þetta fólk. Saga Neanderdalsfólksins er sannarlega mannfræðilegt viðfangsefni, en lengst af hef ég sýslað við þá fræði- grein. Einu sinni var ég reyndar sagður líkjast þessu fólki, og kannski hefur það sitt að segja. Það var einhvern tímann á menntaskólaárunum á Laugarvatni sem við stóðum nokkur, tilvonandi stúdentar, fyrir framan andlitsmyndir á göngum skólans og virtum fyrir okkur nemendahópinn. Einn kennarinn stald- raði við og segir svo við mig: „Þú ert eins og Neanderdalsmaður!“ Okkur þótti þetta fyndið. Þetta var góðlátleg stríðni. FYRSTU BEININ, FYRSTI KOSSINN Neanderdalsfólkið varð útdautt fyrir að minnsta kosti 30 þúsund árum. Við þekkjum það aðeins af beinaleifum þess, áhöldum og vistarverum. Það var árið 1856 sem kennarinn Johann Carl Fuhlrott rak augun í sérkennilegar beinaleifar úr Feldoferhelli í Neander- dal í Þýskalandi. Beinin líktust manna- beinum og vöktu furðu. Sumir töldu í upphafi að um vanskapaða manneskju væri að ræða en írski prófessorinn William King fullyrti að þetta væri áður óþekkt dýrategund sem væri skyldari simpönsum en nútímamönnum. Árið 1863 var tegundin nefnd Homo neander- thalensis, að tillögu Kings.1 Síðar komu fleiri beinaleifar fram í dagsljósið og sýnt þótti að King hefði rangt fyrir sér varðandi skyldleikann við simpansa, Neanderdalsmenn væru náskyldir nú- tímamönnum. Erfðarannsóknir síðustu tuttugu og sjö ár hafa staðfest þessa niðurstöðu. Þetta voru fyrstu Evrópu- mennin, en ættkvíslin Homo varð til í Afríku, hóf útrás til annarra heimsálfna fyrir um 1,9 milljónum ára og ráfaði fyrst um Evrópu fyrir 40 þúsund árum. Neanderdalsmenn eru eina mannteg- undin sem varð til utan Afríku. Þeir fóru víða, allt frá Portúgal til Úralfjalla. Hugmyndir nútímamanna um þá hafa líka tekið stakkaskiptum. Sú hugmynd læddist að fræðimönnum Viktoríutím- ans á Englandi að nútímamenn hefðu verið í nánum samskiptum við Nean- derdalsmenn, jafnvel eignast með þeim börn. En teprulegir fræðimenn sem uppi voru um miðja nítjándu öld höfðu ekki hátt um þessa ögrandi hugmynd, heldur hvísluðu sín á milli um fyrsta kossinn þegar kynblöndun bar á góma.2 VÍGIN FALLA Strax eftir að tegundinni hafði verið gefið nafn var orðið „Neandertal“ (dalur heitir tal á þýsku, áður stafsett thal) gjarna notað sem niðrandi sam- heiti fyrir allt sem talið var frumstætt og forneskjulegt. Líklegt þykir þó að Neanderdalsfólk hafi greftrað sam- borgara sína, forfeður og -mæður, og teiknað á hellisveggi, en hvorttveggja hefur oft verið talið sérkenni nútíma- manna. Myllumerki hafa fundist á hellisveggjum á Gíbraltar og talið er lík- legt að Neanderdalsmenn hafi rist þau. 109

x

Náttúrufræðingurinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.