Mímir - 01.06.2005, Page 97
Ég áleit það skynsamlegast að hunsa þetta bréf og
var feginn þegar hún skrifaði ekki strax aftur.
Nokkru seinna kom þó þykkur bunki merktur „Árni
Thoroddsen: heimildaskrá."
Mér leið eins og ég svifi og horfði niður á sjálfan
mig svæfðan á skurðarborði. Þarna voru tíunduð
hver einustu skrif sem ég hafði sent frá mér síðustu
þrjátíu ár. Hún hafði flett helstu blöðum landsins og
ekki bara skoðað alla umfjöllun um verk mín heldur
einnig lesið minningargreinar um ættingja mína
og tengdafólk og rifjað upp ritdeilur sem ég hafði
lent í ungur og blóðheitur um allt frá málfræði til
varnarliðsins. Hún hafði farið á safn Ríkisútvarpsins
og hlustað á öll viðtöl við mig sem þar voru á skrá
um bókmenntalegt efni sem og um dægur- og
einkamál. Slettirekan hafði jafnvel útbúið skrá
yfir allar vefsíður á Netinu þar sem nafn mitt kom
fyrir. Hún kunni deili á ferli mínum sem hlaupari,
skákmaður og fuglaskoðari og vissi allt um heilsufar
mitt og fjölskyldulíf sem hægt var að álykta út
frá heimildum sem voru ekki beinlínis bannaðar
almenningi.
Mér ofbauð að sjá lifandi mann—migi—gerðan að
upptalningu. Stúlkan var greinilega haldin einhverri
sjúklegri áráttu til að negla mig spriklandi við
vegginn. Hún virtist vera að búa sér til helgiskrín
á skjalaformi með þessum tímafreka hætti sem
líktist mest skopmynd af rannsóknum. Þetta var
eignaskrá dánarbús og minningargrein, líkræða í
sótthreinsuðu gervi hlutlausrar bókaskrár.
Ég svaraði með hagyrtum kviðlingi að íslenskum
sið:
Ef fræðslugirnd er framar ekki dyggð
en frekar orðin della
kemur að ofsóttum efnisvið sú styggð
er ávallt veitir mella.
Svo hvarf ég norður á ættaróðalið þar sem ég
vonaðist til að fá vinnufrið.
Einn daginn hringdi frænka mín frá næsta bæ.
„Það er erlend stúlka á leiðinni til þín. Hún segist
hafa fræðilegan áhuga á þessu landssvæði og vill
endilega fá að skoða bæinn. Má ekki biðja þig að
sýna henni staðinn?"
Auðvitað var það hún.
Þegar hér var komið sögu var ég orðinn heldur en
ekki órólegur. Ef kvensniftin var ekki að njósna fyrir
Bandaríkjastjórn (ofsóknarbrjálæði getur gripið
mann þegar óskiljanleg hegðun blasir við) hlaut
hún að vera með þráhyggju. Hér var á ferð banvæn
aðlöðun í búningi rannsókna.
Þar sem ég sat fastur eins og mús í holu sinni
fannst mér ekki annað hægt en að heilsa henni
kurteislega (þó auðvitað án þess að bjóða henni ínn)
og spjalla við hana úti á hlaði um bæinn og sögu
hans. Loksins gat hún ekki lengur dulið erindi sitt:
„Fyrst ég er komin má ég ekki spyrja þig nokkurra
spurninga í tengslum við þessa ævisögu?" Þrátt fyrir
saklausan tón fannst mér þessi spurning ógnarstór í
samhengi. Ég sagðist því miður ekki hafa tíma, greip
til nokkurra ósannfærandi afsakana og kvaddi hana,
hæverskur en ákveðinn, án þess þó að gefa í skyn
að mér þætti þessi heimsókn nokkuð undarleg eða
ógnvekjandi. Stelpan sat lengi í grasinu spölkorn frá
bænum og krotaði í stílabók, öðru hverju leit hún
á kotið löngunarfullum augum eins og hún væri að
bíða þess að ég skipti um skoðun og byði henni inn.
Á endanum reis hún á fætur og gekk hægt niður
malarveginn í átt að þorpinu. Ég sá hana ekki aftur.
Ævisagan birtist um veturinn þar á eftir í hérlendu
tímariti en reyndar undir dulnefni. Hún rúmaðist á
einni blaðsíðu og hljómaði svona:
Árni Thoroddsen sá silkitoppu ífebrúar
1986. Hann er freknóttur á öxlunum og tekur ekki
af sér úrið fyrir háttinn.
95