Goðasteinn - 01.09.1998, Blaðsíða 311
ANNÁLAR
Goðasteinn 1998
Dánir
Tómas Sigurþórsson frá Kollabæ
Tómas Sigurþórsson var fæddur í
Hlíðarendakoti í Fljótshlíð 23. október
1906 og lést á Sjúkrahúsi Suðurlands á
Selfossi 18.janúar 1997.
Foreldrar hans voru hjónin Sigurþór
Olafsson frá Múlakoti í Fljótshlíð og
Sigríður Tómasdóttir frá Járngerðar-
stöðum í Grindavík. Vorið 1911 fluttist
Tómas, þá á sjötta ári, með foreldrum
sínum að Kollabæ í Fljótshlíð en þar
bjuggu þau síðan við rausn og virðingu
um nær 40 ára skeið. Sigurþór, faðir
Tómasar var um áratuga skeið oddviti
Fljótshlíðarhrepps og hafði forystu um
margs konar félags- og framfaramál í
sveit sinni og héraði. Sigríður, móðir
Tómasar var af hinni merku Járngerð-
arstaðaætt sem margir kannast við og
af er komið þjóðkunnugt fólk, sem
markað hefur spor í þjóðlífinu á undan-
förnum áratugum.
Tómas ólst upp hjá foreldrum sínum
í Kollabæ í stórum systkinahópi. Var
hann næstelstur fjögurra bræðra, en
þeir eru í aldursröð taldir: Sveinn,
Tómas, Olafur og Erlendur. Yngri en
bræðurnir voru fjórar systur þeirra, þær
Margrét, íngibjörg, Guðrún og Stefanía
Jórunn og voru þær síðast töldu tvíbur-
ar. Af þessum systkinahópi er nú, að
Tómasi látnum, aðeins Stefanía Jórunn
á lífi.
Af þessari upptalningu má sjá að
það var stór og mannvænlegur hópur
sem þarna ólst upp á fyrstu áratugum
aldarinnar. Sama mátti segja um mörg
önnur heimili f Fljótshlíð á þessum
árum. Það var sannarlega líflegt og
gróskumikið mannlíf og nóg að starfa
og una við fyrir eldri sem yngri. Tómas
og systkini hans urðu strax á unga aldri
liðtæk við búsannir og heimilisstörf.
Faðir þeirra var, sem áður sagði, mjög
bundinn við félagsmálastörf og kom
því ábyrgð bústarfanna snemma í hlut
eldri bræðranna. Eftir því sem aldur
leyfði hlutu þeir einnig að feta þá slóð
sem sjálfsögð var talin ungum bænda-
sonum hér um slóðir á þeim tíma, en
það var að fara til vers á vetrum. Mun
Tómas hafa farið allmargar vertíðir til
starfa hjá móðurfólki sínu í Grindavík.
Þurfti hann þá, eins og samgöngúm var
háttað á þeim tíma, stundum að fara
fótgangandi í verið og aftur heim að
vori.
Um möguleika til menntunar var
tæpast að tala, þótt atgerfi og áhugi
væri fyrir hendi, námskostir fáir og
námskostnaður almenningi ofviða.
Tónias var samt vel að heiman búinn
að þroska og þekkingu, sem veittist
fyrir áhrif gróinnar bændamenningar
eins og hún best gerðist, og þeirra
frjóvgandi strauma sem fóru um sveitir
með stofnun og starfsemi ungmenna-
félaganna á æsku- og þroskaárum hans.
-309-