Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Page 161
160
Múlaþing
brátt svo mjög, að hún varð ekki mönnum
sinnandi og var vistuð á hjúkrunarheimili
upp frá því allt til dauðadags.
Jón Scheving og Guðlaug bjuggu um
og eftir aldamótin 1900 um skeið á Unaósi
í Hjaltastaðaþinghá. Var Jón þar nokkur
ár umboðsmaður eða verslunarstjóri fyrir
verslunina Framtíðina á Krosshöfða, rétt hjá
Unaósi, þar sem vörum til Héraðsbúa var
skipað í land. Sá Jón um vörulager Fram-
tíðarinnar á Krosshöfða og hafði með hendi
afgreiðslu á varningi til bænda á Héraði. 1909
eða 10 flytjast þau hjónin svo búferlum með
kjörson sinn til Seyðisfjarðar og bjuggu þar
síðan til æviloka. Gunnlaugur ólst því að
mestu upp á Seyðisfirði, gekk þar í skóla og
sýndi snemma listræna hæfileika. Efnaðir
menn í bænum studdu hann fjárhagslega til
náms í málaralist og allmargir bæjarbúar
keyptu síðar málverk eftir hann og Grete,
konu hans. Eftir að Gunnlaugur flutti frá
Seyðisfirði til Reykjavíkur átti hann heimili
þar allt til dauðadags en dvaldi annars næstu
árin langdvölum í Grindavík og vann þar árum
saman að list sinni. Þar fann hann alls staðar
myndefni við sitt hæfi, málaði m.a. þekktar
expressjónískar sjómannamyndir, myndir úr
þjóðlífinu, nokkur portrett og uppstillingar.
Hann fór mjög eigin leiðir í listsköpun sinni
og var talinn í fremstu röð íslenskra mynd-
listarmanna á 20. öld.
Þótt Gunnlaugur og Grete væru skilin að
lögum, hún gift öðrum manni, og þau Gunn-
laugur byggju eftir skilnaðinn hvort í sínu
landi, þá unnust þau samt alla tíð og héldu
vissu sambandi. Gunnlaugur efnaðist vel af
list sinni og studdi Grete ætíð fjárhagslega
meðan hann lifði.
Gunnlaugur Óskar lést 1972, 68 ára að
aldri. Grete Linck lést árið 1992.
Hús greinarhöfundar þar sem Grete Linck gisti er hún heimsótti Austurland. Grete kom þá til Íslands í tilefni af
útgáfu bókar hennar, Árin okkar Gunnlaugs sem kom út í þýðingu Jóhönnu Þráinsdóttur.