Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Page 145
144
Múlaþing
Prúðbúin kona?
Í 16. versi Rígsþulu Eddukvæða segir frá
fötum Ömmu, konu bóndans: „Sat þar kona ...
sveigr var á höfði, smokkr var á bringu, dúkr
var á halsi, dvergar á öxlum.“ Oft er lögð sú
merking í túlkun á perlum og skartgripum úr
fornleifafræðilegu samhengi frá víkingaöld að
þau standi fyrir tákngervingu á persónulegu
sérstæði og sjálfsmynd. Val og framsetning
slíkra gripa feli því í sér táknræna merkingu
tengda sjálfsmynd einstaklinga, sem skilin
eru af einstaklingum í sama eða svipuðum
félagslega hópi. Lykilupplýsingar tengdar
túlkun gripa eru talin tengjast aldri, stöðu,
kyni og hlutverki (Hayeur Smith, 2003b, bls.
228; 2003a, bls. 86-98). Samkvæmt Michéle
Hayeur Smith voru brjóstnælur, ásamt öðrum
tegundum skandinavískra skartgripa, tákn
um stöðu og menningarlega sjálfsmynd (e.
cultural identity) víkingaaldar á Íslandi.
Brjóstnælur hafa einnig verið notaðar sem
kynjaauðkenni í kumlum þar sem ekki er
hægt að nota beinagrindur til kyngreiningar
(Hayeur Smith, 2003b, bls. 228-229 og
239; Hayeur Smith, 2015, bls. 28). Þar sem
flestar brjóstnælur koma úr fornleifafræðilegu
samhengi er hægt að túlka klæðnaðinn sem
spariklæðnað sem hin látna var klædd í við
greftrun, hugsanlega sem sérstakur klæðnaður
sem notaður var til greftrunar (Jesch, 2015,
bls. 96). Í Birka voru brjóstnælur í tæpum
helmingi kvengrafa (Ewing, 2006, bls. 39).
Það hefur komið á daginn að taka þarf
greiningum út frá „kven-“ og „karlgripum“
af varúð, sé tekið mið af nýlega birtri grein
um kvenkyn einstaklings, sem hafði áður
verið talin táknmynd karlmennskunnar; bar-
dagamanns frá víkingaöld, í gröf nr. 581 í
Birka (Hedenstierna-Jonsson, 2017, bls. 853-
860). Deilt hefur verið um hvort brjóstnælur
geti verið tákn frjálsra kvenna, giftra kvenna
eða eiginkvenna frjálsra bænda. Jesch taldi
brjóstnælur á víkingaöld ákveðið tákn, þó að
erfitt gæti verið að vita nákvæmlega hvaða
merkingu þær höfðu:
„We cannot be certain what, probably
multiple, meanings the oval brooches had,
but there is no doubt that they served to
establish a common female identity across
a large part of the Viking diaspora.“ (Jesch,
2015, bls. 97).
Mynd 41, brjóstnælur úr gröf 508 í Birka, sótt frá: http://mis.historiska.se/mis/sok/kontext.asp?kid=715&zone=