Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1983, Síða 33
KUMLATEIGUR í HRÍFUNESI í SKAFTÁRTUNGU IV
37
er sú að gjóskulinsurnar hafi verið í eða á torfum sem ristar voru þegar
gröfin var tekin. Gjóskan gæti hvort heldur sem er hafa verið í torfinu
eða ofan á því þegar rist var. Raskið á Landnámslaginu náði þó fulllangt
austur fyrir gröfina (skiptir metrum) til að hægt sé að skýra það með
torfristunni einni.
Svarta lagið A, sem er 1.5 cm á þykkt, var slitrótt yfir eystra helm-
ingi grafarinnar, alveg á sömu stöðum og Landnámslagið var mest
hreyft. Þetta bendir til að hvort tveggja hafi gerst á sama tíma. Á einum
stað yfir gröfinni stóð þetta gjóskulag upp á endann, tveir samsíða
„bitar“ um 8-10 cm á lengd (mynd 17). Umhverfis var jarðvegsköggull
sem var öðruvísi á lit og hreinni en annar jarðvegur þar. Fjarlægðin
milli slitra úr gjóskulaginu sitt hvoru megin við „bitana“ var um 20 cm,
eða álíka og samanlögð lengd bitanna. Þeir virtust bókstaflega hafa
slitnað frá og risið upp á rönd og hölluðust nú örlítið til austurs. Þetta
getur ekki verið annað en mannaverk og sýnist langlíklegast að það stafi
af röskun sem varð þegar gröfin var tekin. Til að geta haldið þessu
formi þrátt fyrir raskið hlýtur gjóskulagi A að hafa verið haldið saman
af rótunum í sjálfum grassverðinum, þannig að það molnaði ekki þótt
torfusnepillinn væri þunnur.
Svarta lagið B er 3—5 cm þykkt og var samfellt „yfir“ gröfinni nema
á tveim stöðum (mynd 17). Á þessum stöðum eru hin gjóskulögin tvö
líka slitin.
Niðurstaðan af vangaveltum um raskið á þessum þremur gjósku-
lögum er sú, að það hafi orðið á sama tíma og af sömu orsökum.
Ástæðan fyrir því, hve mismiklar skemmdirnar á þeim eru, hlýtur að
vera sú að misdjúpt var á þeim. Landnámslagið getur ekki hafa verið
komið djúpt niður í grassvörðinn þar sem það var verst farið, líklegra
er að það hafi legið á yfirborði; gjóskulagið A hlýtur að hafa verið
komið niður í grassvörðinn, annars hefðu bitarnir tveir sem standa upp
á endann ekki varðveist í þessu formi; og gjóskulagið B, sem var
minnst raskað, var komið svo djúpt að það skaddaðist lítið þegar gröfin
var tekin, tróðst aðeins sundur á nokkrum stöðum.
Engin merki sáust um uppmoksturinn úr gröfinni í bakkanum ef frá
er talið raskið á Landnámslaginu og gjóskulaginu A. Hann virðist því
hafa verið settur „ármegin“ við gröfina.
Samkvæmt ofangreindri röksemdafærslu er gröfin yngri en Land-
námslagið en eldri en gjóskulagið E-l. Vegna þess hve það fyrrnefnda
var illa farið, t.d. yfir eystri helmingi grafarinnar, hlýtur það að hafa
verið nálægt yfirborði eða á yfirborði þegar hún var tekin. Gröfin er
því talin nær Landnámslaginu að aldri og er ef til vill aðeins örfáum