Eimreiðin - 01.01.1904, Blaðsíða 6
6
miðja 16. öld náði léreftið sér niðri sem alment fataefni meðal
Norðurlandaþjóða, en það er fyrst á vorum dögum orðinn siður í
Danmörku, að sveitamenn hafi léreft í annað en nærföt.
Oss skjátlar varla í þeirri skoðun, að kvenbúningurinn á íslandi
á öllum miðöldunum, þar eins og annarstaðar, yfirleitt hafi verið
fólginn í fötum þessum: Inst var skyrtan eða serkurinn, sem oft-
ast var úr ull. Utan yfir honum var fótsíður samfeldur kjóll og
yzt hempa. Par við bættist háleistar eða hálfsokkar, sem frá
fornöld til miðrar 16. aldar vóru úr vaðmáli, því prjónaðir ullar-
sokkar ásamt sokkaböndum komu fyrst fram eftir daga Elísabetar
Englandsdrotningar.
Á miðöldunum hafði Norðurálfubúum þótt mest koma til fata,
er vóru fótsíð og lágu í fellingum. En smátt og smátt urðu,
einkum á fýzkalandi, búningarnir, bæði karla og kvenna, mjög ólögu-
legir, óviðfeldnir og öfgafengnir. Viðreisnin (Renaissancen) kom
einnig fram í því er klæðaburð snerti. Aðalbreytingin var sú, að
kjólnum, sem hingað til hafði venjulega verið samfeldur eða
óskiftur — og var smeygt niður yfir höfuðið — var nú skift í
tvent: þröngan upphlut og slóðalaust pils; utan yfir þessu var
venjulega borin síð hempa, sem var opin að framan. Stundum
var aðeins efstu hálshnöppunum hnept, svo upphluturinn kom
glögglega í ljós; þá sást bæði í upphlutinn og pilsið. Stundum
var hempunni hnept alveg niður að mitti; þá sást aðeins í pilsið.
Beinasta ástæðan til þess, að ýmsir hlutar búningsins vóru
látnir sjást á þennan hátt, var sú, að með því var fengið tækifæri
til að sýna skrautlegu, ljómandi efnin, er búningurinn nú samkvæmt
tízku og smekk þeirra tíma var gerður úr. Áður hafði vaðmálið
verið notað allmikið á Norðurlöndum, en nú vóru búningar heldri
manna og kvenna nálega eingöngu saumaðir úr útlendum, dýrum,
litsterkum, áburðarmiklum og marglitum efnum, eigi aðeins úr
klæði heldur og úr silkiflosi eða silki. P'ötin vóru og oft útsaum-
uð með silfri og gulli; einnig var dýrindis-loðskinn haft einkum til
utanhafnarfata. Auk þess vóru búningarnir settir skartgripum í
miklu stærra mæli en áður, þótt Norðurlandabúar hefðu, eins og
áður er sagt, notað þá allmikið frá elztu tímum.
Hér og í þvf, sem á eftir fer, eigum vér einkum við heldri
menn og konur íslenzku þjóðarinnar og þá einkum við viðhafnar-
búning þeirra. Að líkindum hafa búningar fátækari manna og
kvenna og allrar alþýðu verið hér um bil með sama sniði, aðeins
miklu fátæklegri.