Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1981, Page 3
hvað varðaði hugkvæmni um verkefni, undirbúning að til-
raunaáætlunum, framkvæmd rannsókna og síðast en ekki síst
uppgjör rannsókna en á því sviði voru e.t.v. yfirburðir Ólafs
mestir því honum var einkar létt um að færa í letur flóknar
niðurstöður á máli sem allir skildu. Á þessum árum hjá
Ræktunarfélaginu gerði Ólafur tilraunir með og birti niður-
stöður rannsókna á; sáðsléttum, jarðvinnslu, áburðarnotkun,
belgjurtum, kartöflustofnum og fleira mætti til telja. Síðar
þegar Ólafur gerðist ráðunautur hjá Sambandi nautgripa-
ræktarfélaga í Eyjafirði lagði hann drjúgan skerf til ræktunar
kúastofns Eyfirðinga. Ég hygg að fullyrða megi, að öllum
öðrum ólöstuðum, hafi Ólafur verið í fremstu víglínu þeirra er
landbúnaðarvísindi hafa stundað hérlendis. En áhugamál
Ólafs voru ekki einskorðuð við landbúnað. Hann var mikill
náttúruunnandi og sá margt þar sem hugtók hann. Einkum
urðu honum hjartfólgin ýmis fyrirbæri sem orsökuðust af
náttúruhamförum, svo sem eldgosum, vatnavöxtum, skriðu-
föllum og snjóflóðum. Sérstaklega varð það, sem síðast var
greint frá, efni til ítarlegra rannsókna á þessu sviði. Um það
vitna bækur þær stórar er Ólafur reit og út voru gefnar um
þetta efni. í þessum bókum er dreginn fram enn einn þáttur
áhugamála Ólafs, en þar er á einstæðan máta fléttað saman
hinum fræðilega þætti ofangreindra efna og sögu þeirri er
þeim er tengd; sögu þjóðarinnar í baráttunni við þessi ógn-
aröfl.
Ég kynntist Ólafi fyrst u.þ.b. sem hann er að ljúka sínum
starfsferli. Það var mér einstakt happ að fá að ráðfæra mig við
hann um þau rannsóknastörf er ég þá var að hefja hjá þeirri
stofnun sem Ólafur hafði lengst af haldið uppi merki fyrir.
Hér var mér það eitt áfátt að smátt var numið — því af nógu
var að taka.
Ólafur Jónsson var kvæntur Guðrúnu Halldórsdóttur,
ættaðri að sunnan þar sem landið er flatt. Ekkert er hún þó í
ætt við það land því Guðrúnu þekki ég að því að vera stór-
brotna mannkostakonu sem í langri sambúð með Ólafi var
honum traustur förunautur. Þau Ólafur eignuðust tvö börn