Morgunblaðið - 10.12.2006, Side 38

Morgunblaðið - 10.12.2006, Side 38
við manninn mælt 38 SUNNUDAGUR 10. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ Þ að fyrsta sem verður fyrir manni þegar gengið er inn í íbúð Guð- bergs Bergssonar rithöfundar við Skúlagötu er stórkostlegt útsýni yfir fjöll og flóa. Guðbergur stend- ur við gluggann og verður að orði: – Þetta er fyrir þann sem bíður eftir dauð- anum; hann situr við gluggann og dauðinn kemur yfir hafið og þrífur hann með sér. Þannig er Guðbergur – þegar hann talar er það skáldskapur. Og annað þvíumlíkt, eins og hann kemst gjarnan að orði. Guðbergur er maður einfaldleikans, í hvítum stuttermabol og ljósum buxum, veggirnir hvítir með fáeinum abstrakt myndum og ein bóka- hilla. Svo eru bækur í lokuðu herbergi. Þar vinnur Guðbergur og vel má ímynda sér að blöðin séu á víð og dreif, drög að næstu sögu. Þannig lýsir hann að minnsta kosti því hvernig umhorfs var í herbergi sem hann leigði í risinu á Birkimel 6a þegar hann skrifaði Tómas Jóns- son metsölubók sem kom út árið 1966. Það var svo lágt til lofts að hann varð að opna loftglugg- ann til að geta staðið uppréttur. En Guðbergur hefur aldrei látið sér nægja útsýnið yfir húsþökin heldur ferðast reglulega út fyrir landsteinana. – Það má kannski segja að ég hafi verið með hálfan fótinn á Spáni; ég hef aldrei verið þar heilt ár, þó að ég hafi verið þar oft á ári. Ég held reglulega til þar og í Portúgal og vinn að þýðingum og öðru þvíumlíku. Það er nauðsyn- legt fyrir mig að halda þessum tengslum og gott að fara í gegnum Evrópu, þá veit ég hvað er að gerast í málaralist, tónlist og leikhúsum. Annaðhvort flýg ég beint til Parísar eða til London og þá fer ég alltaf í National Gallery að heilsa upp á sama málverk eftir Piero della Francesca. – Hvaða málverk er það? – Það er af skírn Jesú og er merkilegt fyrir það að þar eru menn ekki bara málaðir að framan, heldur líka á hlið, og með því var brotið ríkjandi lögmál, – svo eru litirnir fallegir. – Ertu trúaður? – Nei, svarar Guðbergur afdráttarlaust. En ég ólst upp í lúterskri trú, lærði alla sálma og hlusta yfirleitt á þá í útvarpinu á kvöldin og klukkan 7 á morgnana fer prestur með morg- unvers. Það situr í mér hjátrú og ég slekk aldr- ei. Ég man að í æsku átti maður að fara út snemma, heilsa morgninum og fá á sig svala frá Guði og sjónum; það var ósköp þægilegt. Guðbergur reið á vaðið á sínum tíma með skáldsögu á Netinu og varð hún efniviður í Hryllilega sögu, sem hann sendir frá sér fyrir jólin. Hann var því fljótur að tileinka sér þenn- an nýja miðil. – Ég held að það stafi af því að ég er sífellt á hreyfingu um menningarsvæði Evrópu. Að því leyti er ég eins og evrópskir listamenn en ekki íslenskir. Ég hef aldrei fjötrast af neinu. Þó að ég hafi verið á Spáni hef ég aldrei njörvast nið- ur af spænskri menningu eða dásamað hana, ekki frekar en franskri eða portúgalskri. Ef maður er á sífelldri hreyfingu sér maður margt. Svo er gott við tölvur að geta lesið ítölsk dag- blöð, katalónsk, spænsk, og portúgölsk. Ég les dagblöðin á Netinu þegar ég vakna og fylgist vel með – það auðgar mann. Þá gerir maður sér líka grein fyrir því hvað maður er lítill; það skiptir afar miklu máli – að vita hvað maður er lítill. – Heldurðu að þú hafir náð til nýrra lesenda með skáldsögu á Netinu? – Ég hugsa aldrei um að ná til eða komast í tengsl í við lesendur. Maður á ekki að standa vörð um sig heldur fara út í óvissuna og svo verður bara allt í lagi. Ég hugsa nánast aldrei um fortíðina heldur reyni að horfa fram á við, ef það er þá hægt. Rithöfundar í íslensku sam- félagi hugsa mikið um viðhorf annarra og eru viðkvæmir fyrir sér og sínu. Þannig er það yf- irleitt í litlum samfélögum. Og ef listamenn sýna öðrum verk sín jaðrar við að þeir verði of- sóknarbrjálaðir: „Hvað skyldu þeir segja um málverk mitt, bókina mína, ljóðin mín?“ Eitt- hvað þvíumlíkt. En fólk segir eitt í dag og ann- að á morgun og það er ómögulegt að henda reiður á því – sem mér finnst ósköp eðlilegt. – Þú tekur ekki gagnrýni inn á þig? – Nei. – En þú hlýtur að vinna með hana? – Nei, það geri ég ekki. Mér fannst verst þegar ég byrjaði að ég hafði engan til að leita til. Svo fór ég til útlanda, þar sem enginn gat skilið mig vegna tungumálsins, og þá var ekki um neitt annað að ræða en að standa einn, þó að maður standi auðvitað aldrei einn – maður stendur með sínum vilja og þekkingu. – Af hverju hafðirðu engan til að leita til? – Ég þurfti að vinna fyrir mér og lifði aldrei neinu kaffihúsalífi, neinu bóhemlífi, neinu fyll- iríslífi, og hafði aldrei neina hirð í kringum mig. Ég leitaði ekki eftir stuðningsmönnum eða hékk innan um gagnrýnendur. Í SÚM voru menn með gagnrýnendur á heilanum, fannst þeir eiga að fá viðurkenningu, og ég spurði: „Af hverju viljið þið fá viðurkenningu frá þeim sem þið fyrirlítið; þeim sem ekkert vita um list frá ykkar sjónarhorni?“ Þeir urðu snarvitlausir ef Valtýr Pétursson sagði eitthvað um þá í Morgunblaðinu eða Bragi [Ásgeirsson], sem er eiginlega eini gagn- rýnandinn á sviði málaralistar hér á landi. Við Magnús Tómasson settum upp nokkrar sýn- ingar í SÚM, þar á meðal með hollenskum mál- ara, Holstein. Sýningarnar stóðu í hálfan mán- uð og það kom eiginlega enginn. Holstein sýndi grafíkmyndir af hænum og fleira í þeim dúr og hafði málað ofan í eina grafíkmynd með gulum lit. Þá skrifaði Bragi að ekki mætti mála ofan í grafíkmyndir, sem var nú svolítið undarlegt viðhorf, segir Guðbergur og hlær innilega. „En mér fannst sniðugt að hann skyldi bara segja að maður málaði ekki ofan í grafíkmynd! Þeir urðu snarvitlausir, sögðu að hann hefði ekkert vit á þessu, en mér fannst hann segja eitthvað sem enginn hafði sagt áður. Ef til vill hafði Holstein gert nokkuð sem enginn hafði gert áður? En hvað heldurðu að gerist? Það rennir leigubíll upp að SÚM, bílstjórinn vippar sér út og kaupir myndina; þetta var eina mynd- in sem seldist á þessum sýningum. Þannig að Bragi gerði mikið góðverk með þessari asna- legu gagnrýni frá sjónarhóli Súmara. – Af hverju fórst þú að skrifa? – Ég veit það ekki. Það var ekki bara ég sem lagði listina fyrir mig heldur líka Vilhjálmur bróðir minn, myndlistarmaður, sem er fimm árum yngri. Þegar hann var í menntaskóla skrifaði ég oft sögur sem hann birti undir sínu nafni og hann teiknaði myndir sem ég birti í skólablöðum. Jóhann Briem, sem kenndi myndlist í Kennaraskólanum, var ánægður með mína myndlist, sem var eiginlega frá Vil- hjálmi bróður. En hinsvegar bætti ég stundum við frá sjálfum mér. Á einni mynd færði ég til löpp á manni og hann sagði að það væri galli á annars góðri teikningu. – Gerðuð þið þetta að gamni ykkar? – Já, þetta er leikur listamanna. Mér liggur við að segja að Vilhjálmur sé eini maðurinn hér á landi sem ég get talað við um myndlist. Við ræðum til dæmis hvar og á hvaða safni tiltekin mynd eftir Goya er og hvort hún er 20 eða 40 cm. Aðrir eru yfirleitt fastir í nútímalist og ein- hverju sem kallað er hugmyndalist, sem er svo sem allt í lagi. En maður stendur ekki kirkju- lega vörð um stefnu í listum! – Geturðu lýst venjulegum vinnudegi? – Ég vakna hálfsex á morgnana og svo hugsa ég. Svo hlusta ég á fréttir klukkan sex og svo hugsa ég. Svo hlusta ég á veðurfréttir kortér fyrir sjö. Það er yfirleitt sami maður sem flytur fréttirnar, nema stundum er það kona og hún er kölluð Jenný. Ég man þegar ég kom til Reykjavíkur að lítil stúlka var þar sem ég borð- aði á Barónsstígnum; hún hét Jenný og var allt- af á leið í „ísabúðina“, þar sem seldur var Mjúk- ís, og ég ímynda mér að hún hafi farið að lesa veðurfréttirnar – að flytja fréttir af snjóalögum og kulda. Á meðan Guðbergur talar teiknar hann myndir með höndunum, mótar veruleikann eins og leir, eða er það skáldskapur? Og bægir frá greinum á göngu um skóg orðanna. – Síðan fer ég að vinna. Áður vann ég allan liðlangan daginn og fram á nótt. En maður verður að hafa góða heilsu til þess; þetta er mikið líkamlegt álag. – Hvernig þá? – Þú getur rétt ímyndað þér Don Kíkóta, ég þýddi söguna og handskrifaði, síðan vélritaði ég allt, þýddi á ný og leiðrétti, og vélritaði aft- ur. Þetta var gífurlega mikil líkamleg vinna. – Og vökurnar hafa tekið á? – Já, og svo er hugurinn líka starfandi á með- an maður sefur, hugsar og leiðréttir, þannig að rithöfundur er að allan sólarhringinn. Ég hef raunar alltaf unnið mikið. Þegar ég skrifaði Tómas Jónsson vann ég sem næturvörður á Hótel Borg frá miðnætti til átta á morgnana, svo skrifaði ég, fór að sofa og hélt áfram að skrifa þegar ég vaknaði. Pétur á Borginni var svo elskulegur að leyfa mér að borða þar ókeypis. Ég fékk líka nesti af því að ég vann á næturvakt og fór með það heim. Þetta var erf- iðisvinna; allar flugvélar fóru á sama tíma og það þurfti að útbúa og færa gestum morg- unverð, bera töskur og taka við greiðslum. Svo voru fullir menn að hringja og fullir menn á hótelinu og það varð að róa gestina. Ég skrifaði mína fyrstu bók meðfram vaktavinnu á Kleppi og þar varð ég líka að koma fólki í ró til að geta unnið. – Var það innblástur fyrir skrifin? – Ég get ekki sagt það. Þó var ég fyrstur hér á landi til að skrifa um geðsjúklinga sem þótti hneykslanlegt á þeim tíma, enda ekki um þá talað. Ég lærði mikið af lífinu á Kleppi – þar sér maður manninn í frumgerð sinni. Þá voru þetta opnar deildir, 30 sjúklingar á deild, sem skipt var í rólegar, órólegar og lokaðar, og ég vann á þeim öllum. Stundum voru menn svo illa farnir að þeir voru látnir vera naktir í herbergjum. Þegar maður sér manninn í nekt sinni við slíkar aðstæður losnar maður við alla fordóma. Þarna sást hvað maðurinn er gífurlega margbrotinn, jafnvel þó að hann sé geðveikur sem kallað er, því geðveikin er ekki einsleit. Þá voru ekki til lyf við neinu og bara gefið róandi. Það kom fyr- ir að afbrotamenn voru sendir á Klepp og jafn- vel gamalmenni á Grund, eins og einn maður sem vildi fá kaffi og mátti ekki fá kaffi, svo hann var bara sendur á Klepp. Það tókst ágætur kunningsskapur með Guð- bergi og Ólafi Friðrikssyni stjórnmálamanni sem var á Kleppi á þessum tíma. – Það var merkilegt hvernig hann var eðli- legur framan af degi og smám saman rann á hann óraunveruleiki eða ranghugmyndir. Það eina sem hann hélt sig áfram við var að vera af- skiptasamur og við ræddum hvort hans stjórn- málaáhugi væri bara hrein afskiptasemi, segir Guðbergur brosandi. – Hann vildi kenna mér að skrifa glæpasögur og hafði skrifað nokkrar sem ekki féllu í kram- ið. Svo rann á hann óráð og þá vildi hann sópa og hreinsa til og við ræddum hvort þetta væri sama árátta hjá honum og að vilja hreinsa til og sópa í samfélaginu, hvort þetta byggi í undir- meðvitundinni. Svo leyfði ég honum að sópa. Einn maður á deildinni hafði þá tilhneigingu að bíta fólk, svo læknarnir rifu allar framtenn- urnar úr honum, sem var hrein flónska, því þegar hann beit voru augntennur eftir en engar framtennur og það reif miklu meira. Ég komst að raun um að hægt er að umgangast alla menn án þess að lenda í vandræðum með því að vera þolinmóður, koma fram við þá eins og börn og vera barn sjálfur. Það gagnaðist mér líka vel á Hótel Borg; ég fór alltaf á frumbernskustig. En þegar umræddur maður ætlaði í vinnuna, Bergiðjan var það kallað, var Ólafur að sópa ímyndað rusl á gólfinu og segir: „Farðu ekki yf- ir ruslið sem ég er að sópa!“ Þá snýr maðurinn sér við og greiðir Ólafi þetta rokna högg, svo hann fellur í gólfið. Til þess að vandræðin yrðu ekki meiri hleypti ég þessum sjúka manni út og stumraði yfir Ólafi. Þegar ég hafði lagt kalda bakstra á höfuðið á honum reis hann upp end- urnærður og hélt áfram að sópa, án þess að muna eftir kjaftshögginu. Þá sagði ég við hann að þó að ég yrði rithöfundur myndi ég aldrei reyna að hreinsa til í samfélaginu og honum leist vel á það. Einu sinni lagði ég til við Ólaf að hann fengi tiltekið herbergi til að vinna í. Þá sagði hann: „Svo þú ert á vegum KGB!“ Ég spurði: „Hvers vegna heldurðu það?“ Hann svaraði: „Þaðan eru dyr sem liggja að útgöngunni og þá koma þeir frá KGB og reyna að drepa mig vegna þess að ég er eini maðurinn á Íslandi sem kynntist Lenín og þeir halda að ég búi yfir vissri þekk- ingu.“ Ólafur vissi nefnilega um hrörnun Len- íns, sem kom ekki fram fyrr en löngu seinna, segir Guðbergur íbygginn. – Hann vissi margt úr stjórnmálaheiminum og um lífið yfirleitt. Og á kvöldin bað hann mig um að fara fram í eldhús, opna lúguna og fylgj- ast með sér þangað til hann sofnaði. Þannig að enginn kæmist að honum, hvorki KGB né illir andar. Svo þegar hann væri sofnaður væri hann í sínum friði. Þessi samleikur umönnunar og sjúkra lyga fannst mér svo merkilegur að engin skáldsaga hefur verið skrifuð jafn vel. En maður segir ekki frá því fyrr en löngu seinna, heldur ýmsu leyndu þangað til maður er kom- inn á vissan aldur – þá missir maður dóm- greindina! Ég fór alltaf á frumbernskustig Morgunblaðið/Árni Sæberg Pétur Blöndal ræðir við GUÐBERG BERGSSON Á Kleppi „Einn maður vildi fá kaffi og mátti ekki fá kaffi, svo hann var bara sendur á Klepp.“

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.