Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 111
ANDVARI
AF ANNARLEGUM TUNGUM
109
hygg að enn um sinn kunni að vera erfitt að staðsetja hann að nokkru gagni,
þótt ég hafi hér verið með einhverja tilburði í þá átt.
V
Ég ætla ekki að ræða leikritaþýðingar hér frekar, meðal annars vegna þess
hversu erfitt er að fjalla um þær sem bókmenntaverk þegar þær eru ekki
aðgengilegar í prentuðu máli. Á undangengnum áratugum hefur mikið verið
þýtt af góðum leikverkum fyrir leikhúsin og útvarpið, en það heyrir til
undantekninga að þessar þýðiugar hafi verið gefnar út.
Hinsvegar á ég enn eftir að ræða stærsta bókaflokkinn á íslenskum bóka-
markaði: þýddar skáldsögur. Verður umfjöllun mín um þær að vera mjög
ágripskennd og dæmi aðallegasótttil áranna 1947,1977 og 1987 ogþau látin
endurspegla þróunina.
Á síðustu árum hefur orðið stóraukning á útgáfu þýddra góðbókmennta
hér á landi. Það kann að minna á hinn gríðarmikla kipp sem hljóp í þýðinga-
útgáfu hér á landi í og eftir síðari heimsstyrjöld og birtist gleggst í útgáfu
þýddra skáldsagna. Skýringin á þeim umskiptum felst að einhverju leyti í
breyttum efnahagsaðstæðum; almenningi áskotnaðist meira fé án þess að
framboð á svonefndum lífsþægindum ykist að sama skapi. Þetta skapaði
aukinn markað fyrir bækur og honum var ekki síst fullnægt með þýðingum
erlendra bókmennta. Vafasamt er að þessi skýring nægi ein og sér, en augljóst
er að það verður til visst svigrúm í útgáfustarfsemi. Meðal annars þess vegna
má ætla að þær þýðingar sem streyma á markaðinn „skilgreini“ íslenska
bókmenntakerfið að töluverðu leyti. Ekki síst vegna þess að lengst af hafa
þýðingar verið háðari þessum svonefnda „markaði“ heldur en frumsamin
verk. Það hafa löngum verið til einhverjir útgefendur sem vilja hlúa að
„vaxtarbroddi“ frumsamdra bókmennta, en sjaldan er hugsað um þýðingar á
þennan hátt, nema þá helst ljóðaþýðingar. Þetta felur í sér að þýðingar verða
á sinn hátt nokkuð marktækur mælikvarði á ráðandi viðhorf í bókmennta-
kerfinu.
Á áratugnum 1940 til 1949 koma út meira en 700 þýddar skáldsögur og
smásagnasöfn. Meðal þeirra eru tugir ef ekki hundruð skáldsagna sem telja
má til „fagurbókmennta“ og ekki er hægt að setja í hinn stóra flokk afþrey-
ingarefnis (sem mér finnst að þyrfti að ræða sérstaklega og er vanræktur hér).
Af atkvæðamiklum prósaþýðendum um miðbik aldarinnar má nefna þau
Guðmund G. Hagalín, Halldór Laxness, Helga Hjörvar, Jón Sigurðsson frá
Kaldaðarnesi, Karl ísfeld, Magnús Ásgeirsson, Maju Baldvins, Sigurð Ein-
arsson og Stefán Bjarman, auk fleiri sem senn verður getið.
Árið 1947, sem hér er valið sem dæmi af handahófi, koma meðal annars út