Andvari - 01.01.1989, Page 170
168
BENEDIKT S. BENEDIKZ
ANDVARI
síðar, fárast hann fyrst yfir sællífi og ónytjungsskap klúbbmanna í London, en
heldur svo áfram:
„En hversu ólíkur þessum sælkerum var hinn ágæti fræðimaður og einhugi
Vigfússon, sem lifði lífi hins göfuga lærdómsmanns á hinum smáu launum
sínum. Ég var við greftran hans. Plummer frá Corpus las jarðarfararritúalið,
og það kom auðheyrilega frá hjartanu - ég hef aldrei heyrt það betur lesið.
Einhverjum nemanda yðar kann að þykja fengur að frétta hvaða lærðir menn
söfnuðust þarna saman við gröf hins óbrotna íslendings. Fremstur þeirra var
York Powell, stórlærður í norrænum málum; þeir Max Muller og Macdonnell
vottuðu samúð sanskrítar; sendiboði semítískra mála var Neubauer, fyrir
slavneskra hönd var Morfill, keltneskra Rhys, engilsaxnesku þeir Earle, Nap-
ier, Mayhew og Plummer; Monro var fulltrúi forngrísku, en Tozer nútíma-
grísku, fyrir hönd latínu Nettleship og almennrar málfræði dr. Murray; sendi-
boðar kirkjusögu og fornrar mannfræði voru þeir Hatch og Tylor; og svo voru
enn aðrir þar sem ég man ekki að nefna.“
Hér er nú heldur en ekki tekið af betri endanum. Fyrir utan York Powell,
sem mun íslendingum kunnastur sem „Jórvíkur-Páll“ hans Jóns Porkelssonar
þjóðskjalavarðar, eru hér komnir saman flestir hinna mest metnu fræðimanna
Englands í málvísindum. Rhys (Sir John Rhys) var sá sem fyrstur manna kom
velskri málfræði og miðaldabókmenntum Wales á vísindalegan fót; Morfill
var á sama hátt sá maður sem sá enskumælandi mönnum fyrir viðunanlegum
málfræðibókum og lesbókum í rússnesku og öðrum slavneskum tungum.
Hugh Monro og Henry Nettleship fylgdu fastast eftir þeim Porson og Madvig
í rannsóknum sínum í klassískri málfræði. Neubauer var hinn lærðasti
hebreskumaður; honum er enn hrósað fyrir brautryðjandastörf sín af nútíma
kennendum í því máli, og ekki voru John Earle og Arthur Napier eftirbátar
hinna í sínum fræðum. Pá er og síðast en ekki síst að nefna Charles Plummer,
kapellán Corpus Christi College í Oxford, jafnvígan á miðaldalatínu, engil-
saxnesku og keltnesk miðaldamál, nafnkunnan útgefanda sagnfræðiverka
Beda prests hins virðulega, hinnar engilsaxnesku kroníku og hinna erfiðustu
fornsagna um helga menn sem ritaðar voru á írska tungu - og að auki fyllilega
jafnoka York Powells að kunnáttu íslenskra fræða - þó að því miður léti hann
ekkert frá sér fara þar á prent. Plummer var lærisveinn Guðbrands, eitt hið
mesta valmenni sem prýddi háskólann í Oxford í meira en hálfa öld, sannleg-
ur „andans fursti Engla“ á allan hátt.
Annars er kvæði þetta að mestu leyti rómantískur hugarburður. En Matt-
hías var mesta skáld okkar á sinni öld, og stórskáld í orðsins fyllstu merkingu,
og að stórskálda hætti leyfðist honum að líta augnablik inn í innsta eðli
mannsins þegar hann lýsti hinstu stund hans: