Andvari - 01.01.1999, Blaðsíða 157
ANDVARI
ENDURFÆÐING HARMLEIKS
155
hvað ef tilfinning fyrir fegurð eða ljótleika verður aldrei mæld? Felst hún
kannski ekki í efninu heldur hinu ósýnilega?
Núna er mér ljóst að fegurð melsins fólst ekki í honum sjálfum heldur var hún fyrir
utan hann. Svona er fegurðin og eðli hennar. Hún var ekki í melnum heldur í hug-
mynd sem ég gerði mér af honum og kannski verður hún í því sem ég dreg fram í
orðum ef ég vanda mig. Á þessu sést það sem ég hef oft sagt að fegurð hlutarins er
ekki í honum sjálfum, ekki í hugmyndinni sem hann sprettur af eða þeirri sem maður
gerir sér af honum heldur í lönguninni til að sjá hann í réttu ljósi. Fyrir bragðið er
fegurðin ekki sjálfstæð heldur í mátulegri fjarlægð frá því sem hugleitt er. Það er að
segja í meðvitundinni og hæfileikanum til að njóta hennar sem viss sannleika. Aðeins
með þessu móti geta allir notið hennar, háir sem lágir, leikir sem lærðir. Jafnvel dýr
og fuglar skynja hana, gleðjast yfir henni eða hryggjast. (104-105)
Er það í fegurð af þessu tagi sem hægt er að lifa hugsunina um listina séða
frá sjónarhóli lífsins?
Endurfæðing harmleiks
í hugsun um frostmorgna bernskunnar og hvernig þeir morgnar eru „það
fegursta í heiminum, hérna á þessum stað, ef minningin er rétt, trúverðug
og hrein með sama hætti og andvarp dagmálanna“ gefur skáld lesanda
hlutdeild í ósk sinni: Hann vildi geta litið hlutlaust á æskustöðvarnar „eins
og listaverk sem á ekkert skylt við annað en það sem vaknar við samruna
þess sem horfir og þess sem horft er á“ (393). En hvernig verður ósk af
þessu tagi að veruleika? Felast mörk lífs og listar kannski í fullkomnu nafn-
leysi? Skáld sem notar rétt nöfn, segir maðurinn, syngur fljótt sitt síðasta.
Skáldið sem býr þau til getur aftur á móti vænst þess „að lifa frásögn sína
eins og hættulegt slys í orðum og stíl“. Sú list, segir maðurinn ennfremur, er
ekki byggð á ótta heldur er hún „leit að þeim samruna sem skáldið veit
ekki hver er“ (392).
Hvort er hættulegra slys, listin eða lífið? getur lesandi spurt og haldið
áfram að nálgast óskiljanleg en um leið skapandi mörk, líkt og köld vatns-
gusa sé lífið og sólskin næturinnar skáldskapurinn um það. Er það kannski
hæfileikinn til að njóta fegurðarinnar sem viss sannleika sem gerir skáldi
kleift að lifa í orðum og stíl hugsunina um listina séða frá sjónarhóli lífsins?
En hver er sannleikurinn ef fjarlægðin sem þessu skáldi er hugleikin - hún
sem er skilyrði hæfileikans að njóta fegurðar af þessu tagi - aðskilur mann
frá öllu því sem maður trúir á og þráir í lífinu? Er maðurinn í lífinu fugl,
hugsi maður um listina séða frá sjónarhóli lífsins?
Um föður sinn, móður, skáldskap þeirra beggja og harminn sem skilur
veruleikann frá skáldskapnum segir maðurinn: