Skírnir - 01.01.1933, Blaðsíða 63
Skirnir]
Hverjir og hvers vegna?
57
Magnús Eyjajarl (16. apríl) er verndari fiskimanna, og
gott er að heita á hann til gæfta og aflasældar.
Malchus, einn sjö sofenda (27. júlí); ekki er kunnugt
að á hann eða þá hafi verið heitið um sérstök efni.
Margrét mær (20. júli) er verndari ungra stúlkna, giftra
kvenna og kvenna, sem hafa börn á brjósti, en gott er að
ákalla hana fyrir þunguðum konum og konum í barnsnauð
°g gegn sárum og sjúkdómum í andliti. Óbyrjum er og
gott að heita á hana. í handritinu AM 431, 12mo, sem er
Margrétarsaga með hendi Jóns (biskups?) Arasonar, er á
bls. 41—50 bæn yfir jóðsjúkri konu, þar sem Margrét mey
er ákölluð bæði á íslenzku og latínu með því, sem þar til
heyrir.
María móðir guðs (hefir 17 messudaga) er ákölluð til
allra mannlegra þarfa.
María aegyptiaca (2. apríl) er verndari allra iðrandi
manna, og gott er að ákalla hana gegn hitasótt.
María Magdalena (22. júlí) er verndari allra þeirra
manna, er iðrast og gera yfirbót, svo og giftra kvenna og
þeirra, er ull kemba, en gott er að heita á hana fyrir
börnum, sem seint læra að ganga, og gegn svarta dauða.
Markús guðspjaliamaður (25. april, gangdagurinn eini)
er verndari húsasmiða, en gott er að heita á hann gegn
kláða og fyrir góðri uppskeru. Á gangdaginn eina var
gengið, og er enn gengíð, um ræktuð lönd og þau bless-
uð, og Markús beðinn árnaðarorðs um uppskeruna (Safn
til sögu íslands I., 667—68).
Marteinn biskup (11. nóv.) er verndari allra hermanna
og riddara, bókfellsgerðarmanna, ferðamanna og málara,
en gott er að heita á hann gegn flísum í holdi, bólusótt,
kýlum og kaunum, barnabólu og heimakomu, og fyrir past-
urslitlum börnum, hestum og búpeningi.
Mattheus postuli (21. sept.); ekki er kunnugt að á hann
hafi verið heitið fyrir neinu því, sem íslendingum mátti
duga til forna.
Matthias postuli (24. febrúar) er verndari járnsmiða og