Skírnir - 01.01.1933, Blaðsíða 158
152 Stiklarstaðaorusta og sólmyrkvinn. [Skírnir
ályktað, að orustan og myrkvinn hafi hlotið að vera á
þeim tíma dags, sem hann tilgreinir, en hann hafi ekkt
tekið það úr eldri heimild. Liestöl hyggur einnig, að dag-
stundin sé ákveðin af Snorra, en tilefnið hafi þó ver-
ið setning í heimild hans, og hljóði sú setning í Helgi-
sögunni á þessa leið: »Eftir því sem þá var, er sjálfur
skaparinn fór af veröldinni«, og muni Snorri hafa minnzt
þess þá, að Kristur dó á hinni níundu stundu. Mér virðist
harla ósennilegt að þessar skýringar séu réttar að því er
Snorra Sturluson snertir, því að ég get ekki séð neina
ástæðu fyrir höfund Heimskringlu til að fara út í þetta
nákvæma tímatal, ef hann hefir eígi haft eldri frásagnir
við að styðjast. Frásögn hans af atburðunum leið engan
hnekki við það, þótt hann hefði sleppt að skýra svo ná-
kvæmlega frá dagstundunum, enda stendur þessi tímatals-
klausa alveg sér í bókinni, og virðist hún beinlínis tekin
eftir eldri heimildum. En vitanlega skiptir það litlu máli
í þessu sambandi, hvort þessar tímaákvarðanir eru gerðar
af Snorra eða einhverjum eldra manni. Og í sjálfu sér álít
ég eigi hægt að mótmæla því, að einhver, sem mikla ást
hefir haft á Ólafi helga, hafi reynt að gera sér Ijóst, hve-
nær að deginum þessir atburðir hafi gerzt, og að niður-
staða hans hafi varðveitzt og komi fram í tímatali Snorra
i Heimskringlu. Að þessu leyti geta því tilgátur Land-
marks og Liestöls átt töluverðan rétt á sér. En hvað er á
móti því að dagstundin hafi varðveitzt i sögnum mann
fram af manni allt frá þeim tíma, er viðburðirnir gerðust?
Ég gæti búizt við því, að fyrsta mótbáran yrði sú, að
eyktamarkið nón, sem dregið er af latneska orðinu nona
(hora) og merkir niundu stund dags, hafi eigi komizt inn
i málið fyr en um þær mundir, er þeir atburðir gerðust er
hér er um að ræða, eða jafnvel síðar, og sé því vottur
þess, að hinar tilgreindu dagstundir séu eigi leifar af
gömlum sögnum, heldur tilbúningur seinni tíðar manna.
Mótbára þessi er samt léttvæg, því að ekkert virðist því
til fyrirstöðu, að Snorri eða einhver annar á undan hon-
um hafi breytt um orðalag og notað nón þar sem hin upp-