Tímarit lögfræðinga - 01.11.2000, Síða 39
rökfærslunni. Efni rökstuðnings í dómi fer jafnframt eftir efnisreglunum, þ.e.
þeim réttarreglum sem eiga við um úrlausnarefnið. Rökstuðningur fer að öðru
leyti eftir tilefni þess að hann er settur fram og því hver tilgangurinn annars er
með honum. Vísað er til þess sem kemur fram í lið 2.1 hér að framan um tilgang
rökstuðnings.
3.3.a Hvað þarf að rökstyðja?
Þar sem dómari er óbundinn af tilvísunum málsaðila til réttarreglna þarf hann
ekki að taka afstöðu til lögfræðilegra útlistana þeirra. Hann þarf heldur ekki að
útskýra hvernig hann beitir réttarreglum við úrlausn málsins. Ekki er venja að
vísa til fræðirita í dómum. Stundum er vísað til dómafordæma en ekki alltaf
þrátt fyrir að þau hafí haft áhrif á niðurstöðuna. Hins vegar þarf að vísa til laga-
ákvæða eða annarra réttarheimilda sem dómarinn byggir úrlausnina á.
Meginreglan er sú að dómari þarf ekki að taka afstöðu til annars en þess sem
deilt er um í málinu. „Ef t.d. stefndi í einkamáli mótmælir ekki atvikalýsingu
stefnanda, er rökstuðningur dómara þar að lútandi ekki annar er sá, að atvik séu
óumdeild“.77
Dómarinn þarf ekki heldur að taka afstöðu til annarra atriða en þeirra, sem
þegar leiða til þess að niðurstaða fæst í málinu, t.d. þegar gallar á málatilbúnaði
leiða til þess að vísa þarf málinu frá dómi.
í dómi Hæstaréttar frá 15. júní 2000 í máli nr. 230/2000 kemur fram að máls-
sóknin hafi verið reist á 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og miði að því að
afla með henni staðfestingar á að eftirstöðvar tilgreindra krafna væru fallnar niður.
Sóknaraðili gerði hins vegar kröfur um greiðslu skaðabóta en kröfurnar gátu hvorki
þjónað markmiði málshöfðunar né urðu þær samkvæmt efni sínu studdar við fram-
angreint lagaákvæði. Þegar af þeirri ástæðu var fallist á úrlausn héraðsdómara um að
vísa málinu frá dómi. Héraðsdómari þurfti samkvæmt því ekki að beita öðrum rök-
semdum en þeim sem leiddu þegar til niðurstöðunnar.
Leiði ein af tveimur eða fleiri málsástæðum aðila til þess að krafa hans nær
fram að ganga þarf dómari að jafnaði ekki að taka afstöðu til annarra máls-
ástæðna, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 6. október 2000 í máli nr. 372/2000 en þar
féllst Hæstiréttur á að óheimilt hafi verið að höfða málið sem eignardómsmál
og var úrskurður héraðsdómara um frávísun staðfestur án þess að taka þyrfti
afstöðu til annarra málsástæðna varnaraðila. Ef málsaðili hefur hins vegar teflt
fram málsástæðum, sem hver fyrir sig nægir ekki til þess að krafa hans verði
tekin til greina, þarf dómarinn að taka afstöðu til þeirra þar til niðurstaða er
fengin. Sama gildir um mótmæli, taka þarf afstöðu til þeirra með sambærilegum
hætti.
77 Þór Vilhjálmsson: „Rökfærsla í dómum og stjórnvaldsákvörðunum", bls. 381.
205