Tímarit lögfræðinga - 01.04.2003, Page 9
dómstóll sneri við þeirri niðurstöðu og felldi lögbannið úr gildi. Málið fór síðan
til æðsta dómstólsins, House of Lords, sem komst að þeirri niðurstöðu að
landslög heimiluðu dómstólum ekki að leggja lögbann við gildistöku laga. Hins
vegar gæti verið að það væri þeim heimilt, og þá væntanlega skylt, samkvæmt
evrópuréttinum og báðu um forúrskurð EB-dómstólsins þar að lútandi. í forúr-
skurði dómstólsins er getið fyrri niðurstöðu dómstólsins um það að stangist
evrópurétturinn á við landslög aðildarríkis víki landslögin sjálfkrafa. Efnisleg
niðurstaða EB-dómstólsins var sú að dómstóli í aðildarlandi bæri að túlka
evrópuréttinn, sem varðaði það mál sem væri til úrlausnar, á þann hátt að liti
dómstóllinn svo á, að einasta hindrun þess að leggja lögbann á gildistöku lands-
laga væru ákvæði í viðkomandi landslögum, bæri að vrkja þeim ákvæðum til
hliðar og fara eftir evrópuréttinum. Þannig varð leiðin greið fyrir þá sem krafist
höfðu lögbanns.
I kjölfar þessa máls fylgdi svo annað mál fyrir EB-dómstólnum um þau
skilyrði sem heimilt teldist að evrópurétti að setja fyrir skráningu skipa í bresku
skipaskrána (C-221/89) og síðast mál um skaðabætur vegna tjóns sem leitt hefði
af nýju skipaskráningarreglunun (C-48/93). Stefán Már Stefánsson prófessor
reifar báða þessa dóma í bók sinni.
Eg hygg að það yfirþjóðlega vald sem birtist í því sem að framan er lýst yrði
mörgum æði framandi þyrftum við íslendingar að lúta því svo ekki sé talað um
löggjafann sjálfan. Hætt er við að einhverjum þætti þá orðið nokkuð þröngt
fyrir sínum dyrum.
3