Hugur - 01.01.1996, Blaðsíða 78
76
Henry Alexander Henrysson
kenningar sínar á. Þær virðast byggja á einhvers konar persónulegri
næmni einstaklingsins til þess að skilja og skynja tjáningu tilfinn-
inga. Hins vegar kem ég ekki auga á neina ítarlega greinargerð fyrir
því hvort þessi næmni sé meðfædd, lærð eða eitthvert samkrull þar á
milli. Um þetta atriði er Símon ekki nógu nákvæmur. í þriðja og
síðast lagi er það stór spurning hvort fagurfræði hans sé ekki of
takmörkuð til þess að geta nýst fullkomlega sem listfræði: það getur
verið erfitt að gera grein fyrir gildi allra listaverka með því einu að
þau veki hjá okkur fegurðartilfinningu. Ég er til dæmis ekki tilbúinn
að hafna því að listaverk sé raunverulegt listaverk vegna þess eins að
það vekur ekki undir nokkrum kringumstæðum með mér fegurðar-
tilfinningu.
Það sem mér finnst þó markverðast við List og fegurð er sú stað-
reynd að Símon flytur fyrirlestrana í Háskóla íslands fyrir almenning
til þess að uppfræða hann um hvað list og fegurð snúist í raun og
veru og til þess að vara fólk við því að hengja dóma sína um list í
einhverju sem á ekkert skylt við list. Þó það væri ekki nema í þessu
ljósi er verk Símonar merkilegt framlag til íslenskrar heimspekisögu,
heimspekileg hugsun er tengd við íslenskan veruleika.
En þess utan er íslensk heimspeki miklu ríkari af því að eiga List
og fegurð, því sem undirstöðurit í fagurfræði stendur það alveg fyrir
sínu enn í dag. Það svarar kannski, eins og áður sagði, ekki öllum
þeim spurningum sem vakna við lesturinn, en það var líka ekki
ætlunin með ritinu, þvert á móti var því ætlað að vera kynningarrit -
n.k. „hungurvaka“ - um fagurfræði og vekja spumingar, spumingar
sem eru alveg jafn lifandi í dag og þær voru þegar Símon flutti
fyrirlestrana fyrir tæplega hálfri öld síðan. Þessi tilraun Símonar
Jóhannesar Ágústssonar, til þess að uppfræða almenning á heimspeki-
legum forsendum, hlýtur því að teljast kafli í íslenskri heimspekisögu
sem inniheldur útfyllt verkefni hennar.