Hugur - 01.01.1996, Blaðsíða 23
Af tvennu illu
21
jöfnu.27 En aftur hlýtur þó að vega þyngra að aðstæðurnar eru svo
ótrúlegar og ólíklegar að réttlæting á gjörð söguhetjunnar myndi varla
halda aftur af feitlögnu fólki að ferðast með lestum. Hún myndi ekki
heldur skapa fordæmisgildi sem réttlæting á mismunun gagnvart hópi
fólks með eiginleika sem alla jafnan er litið niður á, þ.e. þybbnu fólki
almennt, enda felur hún enga slíka réttlætingu í sér. Það er aðeins
hending að í þessu tilfelli er þörf á óvenju feitlögnum manni en ekki
til dæmis óvenjulega hávöxnum. Minnumst þess að við erum ekki að
tala um að fórna þurfi heilli stórfjölskyldu af fituhlunkum - í einu
lagi eða smátt og smátt. Auðvitað kynni að vera að við gugnuðum á
því þegar á hólminn væri komið að ýta fituhlunknum út á teininn;
okkur yrði máski metið það til breyskleika og ekki lagt svo mjög til
lasts. En eins og skrapp upp úr einum nemanda mínum fyrir nokkru
þegar þessi saga var til umræðu: „Mikið vildi ég að ég hefði kjark til
að stjaka við honum.“ Mikið vildi ég að ég bæri áræði til þess ama
líka.
Slík hygg ég að yrði greining nytjastefnunnar á klípusögunum
fjórum; og mæli nú hver rán og regin við mig sem vill. Sjálfsagt
mun einhver bregða mér um kaldrifjað siðleysi; ég skipi mönnum að
saurga hendur sínar bróðurblóði ef því er að skipta og ræni þá þar með
allri sjálfsvirðingu, allri mannrænu. Um slíka ákúru er margt að
segja. í fyrsta lagi er nytjastefnan mjög næm fyrir einstaklingamun; ef
einhver væri svo sinnis að hann gceti alls ekki fengið það af sér að
grípa í handfangið, blaka við þeim feita eða skjóta samgísl sinn, og
gerði hann það samt yrði honum svo gengið að hann sinnti ekki
öðrum þarfaverkum upp frá því, myndi nytjastefnan jafnvel sjá í
gegnum fingur við hann. Það eykur nefnilega alls ekki heildar-
hamingju heimsins að knýja menn með valdi til að gera það sem þeir
geta alls ekki fengið af sér að gera, enda verði þeir eftirleiðis verk-
lausir! í öðru lagi þá liti nytjastefnumaðurinn sjálfsvirðingu öðrum
augum en andmælandinn. Hann teldi sjálfsvirðinguna felast í tryggð
við hugsjónir - málefni eða persónur - sem ekki væru sviknar, hversu
miklir peningar sem væru til að mynda í boði, en ekki slíkri sauð-
tryggð að maður stæði eins og hundur á roði hverrar hugsjónar sinnar,
27
Mér var bent á þetta nýverið á fræðslufundi með trúnaðarmönnum hjá
Akureyrarbæ.