Hugur - 01.01.1997, Page 9
HUGUR 9. ÁR, 1997
s. 7-28
Stefán Snævarr
Sannleikur og suttungamjöður1
Snorri fróði í Reykholti segir svo frá að Æsir hafi eitt sinn búið til
mann úr hráka og nefndist sá Kvasir. Ekki var Kvasir nein hrákasmíð
nema síður sé, hann þótti bera af öðrum fyrir gáfna sakir. Viskan varð
honum reyndar að fjörtjóni, dvergar sögðu að hann hefði kafnað úr
mannviti. Úr dreyra Kvasis brugguðu Æsir mjöð þann er síðar var
kenndur við jötuninn Suttung og verður hver sá maður skáld að bragði
er bergir á drukknum.
Skáldskapur og skilgreiningar
Oft er sagt að í goðsögum séu fólgin djúplæg sannindi og hygg ég að
svo muni vera um þessa sögn. Hún sýnir að skáldskapurinn er sam-
kynja spekinni, hann er ekki eintómur uppspuni, ekki einber tjáning
kennda, ekki eingöngu heillandi dægradvöl.
Gagnstæða skoðunin hefur löngum verið landlæg. Sir Philip
Sidney sagði í Ljóöréttu sinni á sextándu öld: „Skáldið staðhæfir
ekkert og lýgur því aldrei.“2 Eg hyggst nú sýna fram á í þessari grein
að Sir Philip og allir hans nótar hafi á röngu að standa. Fagurbók-
menntir geta veitt okkur þekkingu, þokað okkur nær sannleikanum.
Allir sem einhvem tímann hafa velt hugtakinu „fagurbókmenntir"
fyrir sér vita að ekki er heiglum hent að finna viðunandi skilgreiningu
á því. Til að bæta gráu ofan á svart geta tveir menn samþykkt tiltekna
skilgreiningu í orði en verið algerlega ósammála um beitingu hennar.
Annar segir að atómljóð beri ekki nafn með rentu og falli því ekki
1 Grein þessi byggir að verulegi leyti á fyrirlestri sem ég hélt á vegum Félags
áhugamanna um heimspeki vorið 1995. Sá lestur byggði svo aftur á greininni
„Diktningens sannhet“ í Norsk filosofisk tidskrifi nr. 2 1994, bls. 125-144. Sú
ritsmíð átti sér forvera í greinarkominu „Að skapa og skilja" í Tímariti Máls og
menningar 1991:2, bls. 65-73. Ætlun mín með þessari grein er að þróa áfram
hugmyndir þær sem settar voru fram í greinunum tveimur.
2 Tilvitnunina hef ég úr bók René Welleks Four Critics (Seattle og London 1981),
bls.59.