Hugur - 01.01.1997, Blaðsíða 14
12
Stefán Snœvarr
HUGUR
þekki þá, t.d. veifað í átt til manns sem gengur í áttina til mín og
hrópað „blessaður Jón!“ En mér verður svarafátt ef einhver biður mig
um að lýsa andliti hans svo vel að það standi ljóslifandi fyrir hug-
skotssjónum manna sem aldrei hafa séð hann. Eins og Michael
Polanyi segir: „We know more than we can tell.“10 Verkkunnátta
byggir á þögulli þekkingu; vinur minn einn segir að hann viti ekki
hvar stafirnir á ritvélinni eru, fingurnir sínir viti það! Það lífræna,
innsæisbundna við þögla þekkingu er fremur deild fingranna en
tungunnar.
Samt er þögul þekking aldrei alveg þögul. Eins og norski
heimspekingurinn Kjell S. Johannessen segir þá er beiting máls eða
annað merkingarbært atferli nauðsynlegur hluti hennar.* 11 Hugsum
okkur að ég og förunautur minn sjáum mann koma gangandi til móts
við okkur en hann er það langt í burtu að við sjáum ekki andlit hans.
Samt hrópa ég „þarna kemur Halli!“ Félagi minn spyr: „Hvernig
veistu það?“ Og ég svara að bragði: „Ætli maður þekki ekki kónann á
göngulaginu." Svo sker reynslan úr um það hvort það var Halli sem
þama var á ferð eða einhver allt önnur Ella. Athugið að það er í krafti
þess að ég get tjáð skoðun mína í orðum að hún verður prófanleg og
þar með hugsanlega þekking. Það er sem málið ljósti svefngengils-
vissu okkar töfrasprota, geri hana að þekkingu. Samt má ekki gleyma
því að ég get aldrei lýst göngulagi Haralds nákvæmlega. Þögul þekk-
ing mín á limaburði hans verður tæpast klædd í orð svo viðunandi sé.
Eg get bara notað málið til að tilkynna að ég hafi þessa vitneskju.
Segja má að ég beiti málinu til að gera kort af henni. Eins og við
vitum öll em kort einungis tvívíð, þögli hlutinn er þriðja víddin.
Þá vaknar spurningin hvernig við getum gert kort af þögulli
þekkingu. Til að skilja það skulum við ganga í smiðju Björgvinjar-
skólans í fagurfræði en áðurnefndur Kjell S. Johannessen er ein helsta
sprauta hans. Þeir Björgvinjarmenn segja þekkingu okkar á lista-
10 Polanyi: The Tacit Dimension (Garden City 1966), bls. 4.
11 Kjell S. Johannessen: Kunst, sprák og estetisk praksis (Bergen 1988). Stutt ensk
útgáfa í „Art, Philosophy and Intransitive Understand" í R. Haller og J. Brandl
(ritstj.), Wittgenstein - A Re-Evaluation (Vínarborg 1990), bls. 323-333. Annar
helsti fulltrúi Björgvinjarskólans er Svíinn Tore Nordenstam. Hann hefur smíðað
hugtakið „listhæfi“ (aesthetic competence) og segir hana ekki síst fólgna í þögulli
þekkingu á list. Nordenstam: Explanation and Understanding in the History ofArts
(Bergen 1978), bls. 72-79.