Hlín - 01.01.1941, Blaðsíða 68
66
HUn
veiki, og hefði síöur komið, ef jeg hefði fengið í tíma
lýsi í magann og sól á hörundið, en sýnir þó, hve móð-
ir mín var mjer hjartagróin, og hve mjer var ant um
hennar vellíðan. En jeg man tvent sem átti sinn þátt í
hræðslunni og jók hana.
Það var altaf verið að jarða fólk í Oddakirkjugarði,
einkum mislingasumarið 1882. Jeg og aðrir krakkar
vorum altaf á gægjum uppi á kirkjugarðsvegg til að
fylgjast með sermoníunum, og við sáum þá hve sorg
ástvinanna, sem fylgdu, var sár og hryllileg, svo jeg
gleymi því aldrei. Svo dreymdi mig eitt sinn hræðileg-
an draum. Mjer þótti mamma vera dáin og komin í kistu.
Það var engin venjuleg líkkista, heldur brúnleit, rósótt
og járnslegin geymslukista með ártali og stöfum, mesta
ferlíki. Jeg sá hvorki pabba nje prest neinn, og heldur
ekki heimilisfólkið, en ýmislegt fólk utan úr sveitinni
og eldri' bændur, sem jeg þekti. Og allir kyrjuðu hjá-
róma vísuhúsganginn: „Nú er komið nóg að sinni, —
nú er því að ætlun minni — mál til að búast brott, —
o. s. frv.“. — Þetta var alt svo ófagurt og ömurlegt —
og mamma í kistunni, bráðum hulin mold — jeg hljóð-
aði upp úr svefninum og hrökk upp grátandi ,en varð
fljótt rólegur og feginn að þetta var aðeins draumur.
En eftir þetta kom aftur og aftur hugsunin um að
draumurinn væri' fyrirboði. — Það jók minn ugg um
allan helming og mínar sorgir voru þungar sem blý.
Verst var að jeg þorði ekki að tala um þetta við neihn.
Jeg hafði heyrt að draumar rættust fremur, ef sagt
væri frá þeim. Síst af öllu gat jeg skriftað þetta fyrir
mömmu. Þess vegna var í engin hús að venda nema
reyna að tala við Drottinn og reyna að blíðka hann.
Og jeg varð smám saman vongóður um, að hann hefði
sint mjer. En máske var það þorskalýsið sem farið var
að verka. „Guðs vegir eru órannsakanlegir“, segja trú-
aðir, en því trúi jeg aldrei.