Uppeldi og menntun - 01.07.2008, Side 40
40
gÓðUR kennAR I :
skiptir miklu. Ef hann er hundleiðinlegur endar það með skrópi. Um fimmtungur (21%,
n=34) tilgreindi að góður kennari væri ljúfur og góður. Nemandi skrifaði: …rólegur,
ljúfur og góður og alls ekki frekur; … smá bros gerir heldur engum mein, kennarar þurfa að
brosa meira til nemenda. Jafnmargir (21%, n=34) minntust á mikilvægi þess að kenn-
arinn væri hjálpsamur.
Um 15% nemenda nefndu þá kosti að kennarinn sýndi þeim virðingu, að hann
væri sanngjarn, skilningsríkur og hlustaði á þá. Einn nemandinn skrifaði á þessa leið:
Kennarar verða að sýna umburðarlyndi og skilning á ýmsum uppákomum varðandi nemendur.
annar sagði: Góður kennari kemur vel fram við nemendur og mætir þörfum þeirra. Og sá
þriðji: Það er líka mikilvægt að viðkomandi muni eftir hvernig það var að vera á þessum aldri
og taki tillit til þess.
Eins og sjá má á mynd 1 nefna 10−11% nemenda að góður kennari geri námsefnið
skemmtilegt, að hann geri ekki upp á milli nemenda og þekki námsefnið vel, eins og
þessi orð bera með sér: Hann gerir námsefnið skemmtilegt og áhugavert. Hann mismunar
ekki nemendum heldur hefur jafnt yfir alla. Hann verður [nemandi undirstrikaði] að þekkja
námsefnið vel og vita hvað hann er að tala um.
Hægt er að flokka hugmyndir nemenda um kosti góðs kennara í tvo þætti (sjá
Moore, 2000). annar þeirra er persónulegir eiginleikar kennara og viðmót. Persónulegir
eiginleikar lúta að skapgerð, eins og að kennarinn sé skemmtilegur, góður og blíður.
Viðmót kennarans vísar til framkomu hans og félagslegra þátta, að hann sé hjálpsam-
ur, sýni nemendum virðingu, sanngirni, skilning og hlusti á skoðanir þeirra. Hinn
þátturinn vísar til kennslufræðilegra þátta sem eiga við atriði eins og bekkjarstjórn, að
kennarinn sé sveigjanlegur og útskýri námsefnið vel. Á mynd 1 má sjá að af tíu at-
riðum sem nemendur nefna oftast snúa sjö að persónulegum eiginleikum kennara
og/eða viðmóti hans en þrjú að kennslufræði hans. Niðurstöðurnar benda því til að
persónulegir eiginleikar og viðmót kennarans vegi þungt í hugmyndum nemenda um
góðan kennara þótt atriði er lúta að kennslufræðilegum þáttum eða verklagi skipti
einnig miklu.
Aldurs- og kynjamunur
í nokkrum atriðum kom í ljós munur á hugmyndum nemenda eftir aldri. Hlutfallslega
helmingi fleiri í hópi yngri nemenda (tíu ára) en þeirra eldri (fjórtán ára) lögðu áherslu
á að kennarinn væri sveigjanlegur (49% á móti 23%), χ2 (1, n =161) = 11,91, p<0,001.
Einn tíu ára hefur orðið: Hann lætur oft hafa frjálst … leyfir manni að spila stundum …
hleypir manni stundum í tölvur, leyfir okkur að læra úti þegar veðrið er gott. Svo virðist sem
sveigjanleikinn hjá yngri nemendunum vísi til þess að hafa frjálsa stund eða val um
viðfangsefni en hjá eldri nemendunum fremur til þess að kennari gefi frí eða víki frá
reglum, eins og orð þessa 14 ára nemanda sýna: Góður kennari er sá sem er sveigjanlegur á
reglur ef rök nemenda eru marktæk. Enn fremur kom í ljós viðhorfsmunur hjá nemendum
eftir aldri á því hvort góður kennari væri góður og blíður, χ2 (1, n =161) = 15,47,
p<0,05. Hlutfallslega fleiri tíu ára nemendur (stúlkur 39%, drengir 28%) en fjórtan ára
(stúlkur 15%, drengir 3%) minntust á það atriði. Hjá tíu ára dreng kom fram að góður