Uppeldi og menntun - 01.07.2008, Page 87
87
böRkUR HANSEN
ÓlAfUR H. JÓHANNSSoN
StEINUNN HElgA lÁRUSdÓttIR
Breytingar á hlutverki skólastjóra
í grunnskólum
Kröfur, mótsagnir og togstreita
Umtalsverðar breytingar á ytra umhverfi grunnskóla hafa átt sér stað á síðustu árum. Í þeirri
rannsókn sem hér er kynnt er athyglinni einkum beint að breytingum á störfum skólastjóra.
Greint er frá því hvernig þeir verja tíma sínum og niðurstaðan borin saman við fyrri rannsóknir
á störfum þeirra. Sagt er frá mati skólastjóra á áhrifum þriggja ólíkra hópa á störf þeirra, þ.e.
deildarstjóra, kennara og foreldra. Niðurstöðurnar benda til þess að skólastjórar leggi í vaxandi
mæli áherslu á starfsmannamál og telji að tilkoma deildarstjóra hafi skapað þeim aukið svigrúm
til að fást við mikilvæg viðfangsefni. Þeir meta áhrif kennara mikil í skólastarfinu en telja vilja
þeirra mismikinn til þátttöku í ákvörðunum um einstök málefni og telja mikilvægt að auka enn
frekar tengsl við foreldra.
inn gang ur
Á síðustu árum hafa orðið umtalsverðar breytingar á ytra umhverfi skóla bæði á
íslandi og annars staðar á Vesturlöndum. Á íslandi urðu umfangsmestu breytingarnar
í kjölfar grunnskólalaga árið 1995 (Lög um grunnskóla nr. 66/1995). Með þeim fluttist
forræði grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, skólanefndir fengu aukið vald og áhrif
foreldra voru aukin. Þessar lagabreytingar höfðu jafnframt umtalsverð áhrif á stöðu
og hlutverk skólastjóra. Sjálfstæði skólastjóra jókst og umfang starfsins einnig. Meðal
nýrra viðfangsefna skólastjóra í kjölfar nýrra grunnskólalaga voru aukin fjárhagsleg
ábyrgð, formlegt mat á skólastarfinu, gerð áætlana um endurmenntun starfsmanna,
mótun þróunarstarfs í skólum, aukið samráð við kennara og aukið samráð og upplýs-
ingamiðlun til foreldra.
í þeirri rannsókn sem hér er kynnt er athygli einkum beint að breytingum á störfum
skólastjóra en aðstandendur hennar hafa staðið fyrir rannsóknum á hlutverki þeirra
um árabil. Fyrst er gerð grein fyrir bakgrunni rannsóknarinnar, þá er rannsóknarað-
ferðin kynnt og því næst gerð grein fyrir helstu niðurstöðum. Greint er frá því hvernig
skólastjórar verja tíma sínum nú og niðurstöður bornar saman við fyrri rannsóknir á
störfum þeirra. Sagt er frá mati skólastjóra á áhrifum þriggja ólíkra hópa á störf þeirra:
Deildarstjóra, kennara og foreldra. í umræðukafla er leitast við að túlka niðurstöður,
Uppeldi og menntun
17. árgangur 2. hefti, 2008