Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Blaðsíða 76
BJARNI VILHJÁLMSSON
Hugljómun um kölska
Enginn þarf að velkjast í vafa um, við hvern er átt þegar kölski er
nefndur, og verður því engin trúarsöguleg grein gerð fyrir honum hér.
Á síðari tímum er þetta nafn myrkrahöfðingjans kunnast úr þjóðsögum,
bæði úr helgisögum, sem segja frá baráttu góðra og illra afla um manns-
sálina, og úr sögum um einstaka galdramenn, svo sem Sæmund fróða,
Eirík í Vogsósum og Hálfdan í Felli, sem komust svo langt í list sinni,
að þeir vöfðu kölska um fingur sér og höfðu hann sér til hægri vika
án þess þó, að þeir stefndu sálarheill sinni í voða. Hins vegar hefur
uppruni orðsins vafist fyrir mönnum, og sannast sagna hef ég aldrei
verið sáttur við þá skýringu orðsins sem helzt hefur verið á loft haldið.
Það er tilefni þessarar ritgerðar að ég þóttist ekki alls fyrir löngu við
skyndilega hugljómun koma auga á nýja skýringu á uppruna orðsins
kölski. A. m. k. hafði ég aldrei heyrt eða séð þeirrar skýringar getið.
Þegar ég fór að reyna að styðja hana rökum, m. a. með leit að gömlum
dæmum í seðlasafni Orðabókar Háskólans, varð ég þess brátt áskynja,
að Ásgeiri Blöndal Magnússyni kom þessi skýring engan veginn á óvart,
en ég gekk á brott erindi feginn, því að ég hafði fundið ýmis dæmi sem
studdu skýringu okkar. Þar sem hennar hefur hvergi, svo að ég viti,
verið getið á prenti og tveir menn höfðu komist að sömu niðurstöðu,
óháðir hvor öðrum, leyfi ég mér hér með að láta rökstuðning minn
koma fyrir sjónir málfræðinga. Finni skýringin ekki náð fyrir augum
þeirra, vonast ég til að einhver þeirra verði til að hreyfa andmælum, og
er þá betur af stað farið en heima setið. Svo mikla skemmtun hef ég
haft af þjóðsögum um kölska, auk þess sem ég hef fengist við að búa
sumar þeirra til prentunar, að hann á það að mér að ég fjalli um þetta
sérkennilega og torráðna nafn hans.
Það fer ekki milli mála, að kölski er nafn á myrkrahöfðingjanum,
sjálfum djöflinum, og er einkum notað þegar hann birtist manna á
meðal í sakleysislegu gervi. Guðmundur Finnbogason ritaði eitt sinn
grein er hann nefndi Bölv og ragn, þar sem hann tekur til meðferðar
flest blótsyrði málsins og leitast m. a. við að skýra uppruna nafnsins