Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Blaðsíða 192
MAGNÚS PÉTURSSON
íslenzkur framburður í japanskri hljóðritun*
Inngangur
Á síðastliðnu ári kom út í Tokyo bók eftir Sadao Morita og Tatsuro
Asai, sem ber titilinn „Aisurando chimei shðjiten. Fu kana-hyöki, öban
chizu“ eða „Lítil orðabók íslenzkra örnefna ásamt kana-umritun og
stóru korti“. Bókinni er ætlað að vera leiðarvísir fyrir japanska ferða-
menn, sem leggja leið sína til íslands. Henni fylgir stórt íslandskort, sem
bæði er prentað á íslenzku og japönsku. Þótt nokkrar prentvillur sé að
finna í bókinni, er hún tiltakanlega fallega prentuð. Einnig er hún ná-
kvæm og gefur m. a. upp nákvæma landfræðilega legu þeirra staða, sem
getið er um. íslenzku ömefnin eru prentuð á íslenzku. Síðan kemur
framburðurinn í japanskri atkvæðisskrift — kana-umritun — og síðast
þýðing örnefnisins á japönsku, ef slíka þýðingu er hægt að gefa, en ann-
ars skýring á því, hvers konar fyrirbæri sé um að ræða. Það, sem einkum
er athyglisvert frá málfræðilegu og hljóðfræðilegu sjónarmiði, er fram-
burður íslenzku örnefnanna eins og hann kemur fram í japönsku um-
skriftinni. Hér er um að ræða samanburð á hljóðkerfi tveggja tungu-
mála, sem era eins ólík og tvö tungumál geta verið. íslenzka tilheyrir
germanska málaflokknum innan indóevrópsku málafjölskyldunnar, en
japanska stendur alveg ein út af fyrir sig. Ekkert mál er þekkt, hvorki
lifandi eða dautt, í Asíu eða annars staðar, sem er skylt japönsku eða
tilheyrir sömu málafjölskyldu. Eina málið, sem einhvers konar skyld-
leiki virðist vera við, er mál Ryökyú-eyjanna, sem liggja sunnan við
Japan (Meier/Meier 1979). Eyjarnar tilheyra Japan og hefur frá fomu
fari verið mikið um samskipti milli íbúa þeirra og Japana, enda vora
Ryúkyú-eyjarnar eins konar landbrú, sem auðveldaði mikið að halda
uppi samskiptum við eyjuna Taiwan og við meginland Kína. Til þess að
lesendum verði fyllilega ljóst, í hverju vandamálið er fólgið, verður að
skýra stuttlega, hvernig japanska er skrifuð og hvemig hljóðkerfi máls-
ins er.
* Prófessor Morita fór yfir handritið og benti á nokkur atriði, sem ég hef lag-
fært. Ég þakka honum hér ómetanlega hjálp. Sem hljóðhafi japanskrar tungu
hlýtur hann eðlilega að sjá ýmsa hluti öðruvísi en útlendingur, sem lærir málið.