Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Blaðsíða 188
178
Kristján Eldjárn
grip. Trúlegast virðist að listamaðurinn hafi einhverra hluta vegna orðið
að afhenda smíðisgrip sinn ófullgerðan. Á lokinu er einnig mjög einfalt
verk, þótt það sé að vísu smekklegt, og bendir það einnig til tímahraks.
Á framhlið og báðum göflum er hinsvegar vandaður útskurður sem sver
sig í ætt við hið besta sem eftir Hjálmar liggur, sjálfan Blöndalskistilinn
(Hagleiksverk nr. 1, bls. 23-26) og kistil Ingibjargar Jóhannsdóttur
(Hagleiksverk nr. 4, bls. 30-38). Framhliðin er eins og tilbrigði við
framhlið Ingibjargarkistils, og ber það helst í milli að í stað syndafalls-
atriðisins á honum er hér byggð upp í miðju neðan frá líkt og súla með
ýmsu skreyti og má í því miðju sjá stafinn H ef manni býður svo við
að horfa. Báðum megin við þetta miðskreyti er svo mikið og samfellt
skrúð af blöðum, greinum og blómum, samhverft í megindráttum en þó
með mörgum smálegum frábrigðum. Allur er þessi útskurður upp-
hleyptur, þannig að skorið er upp úr öllum grunninum, eins og Hjálmar
gerði oft, og á þessum kistli, eins og á Ingibjargarkistli, eru allar brúnir
í munstrinu ávalar, og gefur það verkinu sérstaka mýkt. Á göflunum
báðum er brugðið á leik nokkuð svo, þótt haldið sé því megineinkenni
að skreytið byrjar neðst á miðjum fleti og hefst samhverft upp þaðan.
Þar rís leggur eins og trjástofn með skágreinum upp og út, svo að svip-
sinnis minnir á jólatré, en efst á þessum stofni er á öðrum gafli stórt
blóm en á hinum stór margfaldur sporbaugur og út og niður frá honum
standa leggir þvert á fyrrnefndar skágreinar. Auk þessa eru svo á göfl-
unum blöð og greinar eftir því sem flöturinn þarfnast til þess að hvergi
sé tóm. Öllu þessu verki er laglega fyrir komið. Tilfyndnin má ekki
meiri vera, en gaman er að sjá Hjálmar bregða sér út af spori hefðar-
innar og þreifa svolítið fyrir sér með kutanum sínum.
Á kistillokinu er ekki skrautverk í venjulegum skilningi, heldur er
fletinum snoturlega skipt í fjóra jafnstóra upphleypta reiti, og á þá er
deilt niður svofelldri áletrun með innskomum stöfum: Gudrún - Ións-
dótt(ir) - Anno - 1833. Þarna er þá ekki aðeins nafn fyrsta eigandans,
heldur einnig smíðaárið. Hvort tveggja er vel þegið. Ingibjargarkistill
mun eflaust vera gerður mjög um sama leyti og þessi eða um það bil
sem Hjálmar er að setjast að í Bólu. Hann er þá maður á besta aldri og
alkunn hrakfallasaga hans varla byrjuð.
Ætíð hefur fylgt Tryggvakistli að hann væri verk Hjálmars. Tryggvi
Emilsson hefur greint mér svo frá, að fyrsti eigandi kistilsins hafi verið
Guðrún Jónsdóttir, bónda í Ytri-Svartárdal Hallssonar. Guðrún fædd-