Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Qupperneq 134
128
Jakob Benediktsson
aldar. Hinsvegar er þar töluvert af fátíðum orðum, sem naumast er lík-
legt að hafi verið í daglegu tali sr. Jóns. Við nánari athugun kemur í ljós
að mikill hluti þessara orða ásamt samsvarandi latneskum orðum koma
einnig fyrir í íslenskri þýðingu á Nomenclator omnium rerum eftir
Hadrianus Junius.8 Þessa þýðingu eignar Hálfdan Einarsson Katli Jör-
undssyni,9 og má telja víst að hún sé frá þeim árum sem hann var kenn-
ari í Skálholtsskóla, en þaðan vígðist hann að Hvammi í Dölum 1638.
Nú segir Jón Þórðarson í formála sínum að Ljóðaglósunum að
„hvorki Nomenclator né önnur glósnakver, áhöld eður instrumenta,
hafa mér í nálægð innan handa til viðurstuðnings verið“. Ekki er ástæða
til að rengja þessi orð, en hitt er ljóst að Jón hefur þekkt Nomenclator
og lært þar margan glósufróðleik. Samsvaranir bæði í latnesku og ís-
lensku orðunum eru svo margar að það getur ekki verið tilviljun. Jón
Þórðarson hlýtur að hafa notað Nomenclator rækilega, líklega á skóla-
árum sínum, og munað vel það sem hann lærði þar af latneskum
glósum.
Hér skulu aðeins nefnd nokkur dæmi um orð sem allar líkur eru á
að séu úr Nomenclator komin. Sé ekki annars getið, koma bæði latnesku
og íslensku orðin heim við Nomenclator. Blaðsíðutal í R 752 er sett í
svigum.
Sartago — bráðpanna (84), tabellarius — bréfberari (46), mamillare
— brjóstadúkur (21), succussator — brokkur (34), favilla — einmyrja10
(16), auriscalpium — eyrnaskefill (46), digitale — fingurbjörg (75),
prasinus — grasgrœnn (76), porcus — gríslingur (105), spira — hatt-
band (81), pruina —hrímfrost (97), scutella — kúpa (105), rivales —
kviðmágar (59), articularis (+ morbus, Nom.) — liðaverkur (45), acia
— nálþráður (95), coprophorus — rakkari (56), furunculus — riddara-
barn (76), sternax — rösull (32), talitrum — selbiti (98), pleuritis —
síðusveipur (99), bombyx — silkiormur (80), cerdo — skólappari (46),
8 Þetta er Iatnesk orðabók þar sem orðunum er raðað eftir efnisflokkum; kom
fyrst út 1567, en síðan í mörgum útgáfum með þýðingum á ýmsum málum. Is-
lenska þýðingin er gerð eftir útgáfu frá 1577.
9 Sciagrapliia historiœ literariœ Islandicœ, 1777, bls. 35. Islenska þýðingin á
Nomenclator er varðveitt í nokkrum handritum; elst eru ÍB 77 fol. og Rask 5, bæði
frá 17. öld og að mestu samhljóða; önnur handrit eru frá 18. öld, flest stytt, en
hafa þó lítið eitt um fram gömlu handritin. Hér á eftir er stuðst við ÍB 77 fol., sé
ekki annars getið.
10 Þessi mynd orðsins eimyrja er og kunn úr yngri heimildum.