Uppeldi og menntun - 01.07.2011, Page 78
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (2) 201178
horft Um öxl
Karen: Þegar ég hitti Helgu í fyrsta skipti, þegar við vorum orðnar vinkonur, þá leið
mér alveg rosalega vel.
Bryndís: Mér fannst skemmtilegt að leika við Alex og leika við Kristin í dýnunum og
líka með einingakubbana.
Haraldur: Mér fannst gaman að leika við Rúnar og Bjarna, Einar og Birgir.
Fremur fátítt var að börnin ræddu sérstaklega um starfsfólkið í leikskólanum. Aðeins
ein stúlka talaði mikið um einn leikskólakennara. Það var hins vegar ljóst að starfs-
fólkið hafði mikilvægu hlutverki að gegna í lífi margra barnanna í leikskólanum,
einkum ef þau höfðu þurft á hjálp eða stuðningi að halda. Nokkur börn nefndu að
þau hefðu verið örugg í leikskólanum þegar kennarinn var nálægur. Hér ræða tvær
stúlkur um það hvenær þær voru öruggar í leikskólanum.
R.: Hvenær voruð þið örugg í leikskólanum?
Elsa: Í kjöltu kennarans.
Anna: Við hliðina á honum – kennaranum.
Leikskólakennararnir ræddu um þetta og sögðu að það kæmi þeim ekki á óvart að
önnur börn væru mikilvægari en starfsfólkið því að síðasta árið í leikskólanum væru
börnin orðin örugg með sig, þar sem þau væru búin að vera í leikskólanum í nokkur
ár „þannig að þau þurfa minna á manni að halda svona síðasta árið“. Þetta er í sam-
ræmi við það sem ein stúlka sagði, að hún hefði verið ánægðust þegar hún hefði verið
í elsta hópnum „því þá var ég búin að kynnast öllum“.
Hlutir og atburðir sem voru öðruvísi og tilheyrðu ekki daglegu skipulagi voru oft
nefndir sem minnisstæðir og ánægjulegir. Til dæmis öskudagurinn, vettvangsferðir,
þegar lögreglan kom í heimsókn, þegar börnin fengu að fara á hestbak, þegar for-
eldrarnir komu og sungu fyrir þau, sumarhátíð, útskriftarhátíð og þegar þau léku
Víkingaleikritið.
Þegar börnin ræddu um það leikefni eða leiksvæði sem þeim hefði líkað best í
leikskólanum voru svör þeirra nokkuð fjölbreytt. Flest börnin í báðum leikskólunum
nefndu leik úti við. Þau nefndu bæði „leika úti“, ákveðin leiktæki eins og rólur og
kastala eða leiki eins og fótbolta eða þau nefndu ákveðna vini sem þau léku við úti.
Kristján og Jónas sögðu báðir að þeim hefði fundist skemmtilegast úti. Þegar þeir voru
spurðir nánar út í það sagði Jónas: „Ég fór alltaf í fótbolta við Óla“ og Kristján sagði að
það hefði verið skemmtilegt úti: „Af því að þar var doldið leiktækjaval. Og við gátum
farið bak við hól og þannig.“
Leikskólakennurunum fannst áhugavert að heyra að börnin vildu helst vera þar
sem þau voru úr augsýn fullorðinna svo sem á bak við hæðina. Myndirnar, sem börnin
teiknuðu, og frásagnir þeirra um myndirnar lýsa þessum sjónarmiðum og sýna margar
þeirra börn að leik úti við. Af 55 myndum af ánægjulegum hlutum eru 28 þeirra af leik-
skólalóðinni, 13 frá stúlkum og 15 frá drengjum. Börnin teiknuðu myndir af sjálfum
sér að leika við önnur börn úti eða myndir af tækjum eins og rólum, kastölum og
rennibrautum.