Sagnir - 01.06.2009, Page 8

Sagnir - 01.06.2009, Page 8
Sagnir, 29. árgangur Guðmundur Hálfdanarson ímyndir - sjálfsmyndir: Hvernig mynda þjóðirsér söguskoðun? Snemmsumars árið 2008 sendi Sagnfræðingafélag Islands þáverandi forsætisráðherra Islands, Geir H. Haarde, bréf þar sem kvartað var yfir þeirri söguskoðun sem birtist í skýrslu um „ímynd íslands“ sem hafði komið út skömmu áður á vegum forsætisráðuneytisins. í bréfinu benti stjórn félagsins á að skýrslan byggði á úreltum hugmyndum sem væru greinilega „á skjön við sagnfræðirannsóknir síðustu 30-35 ára".1 Því til stuðnings var tekið dæmi af fullyrðingum í skýrslunni sem þóttu vafasamar, svo sem um innbyggða frelsisást þjóðarinnar sem skýrsluhöfundar sögðu að væri „mótuð af lífsbaráttu í harðbýlu landi“ og að þjóðin hafi tekið „stökk frá því að vera þróunarland til þess að verða ein ríkasta þjóð í heirni á innan við öld“ við það eitt að fá frelsi og sjálfstæði.2 Ahersla ímyndarskýrslunnar á eðlislæga ást íslendinga á frelsinu þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart því að hún er greinilegt barn síns tíma. I umsögnum „rýnihópa“, sem skýrsluhöfundar notuðu sem heimild um sjálfsmynd íslendinga, er landsmönnum talið helst til gildis að þeir séu nýjungagjarnir og vaði „áfram, en á jákvæðan hátt“ (62); þeir „láta ekkert stoppa sig“ (69); í viðskiptum „förum [við] okkar leiðir, framhjá „hírarkíinu“ (valdakerfinu)“ (69); á Islandi er „alltaf sagt: „já við getum örugglega gert þetta“. „Can do spirit“. Við trúum því að við getum allt“ (69), o.s.frv. Allar þessar klisjur um hina frjálssinnuðu og óheftu íslendinga voru áberandi til skamms tíma, á meðan „útrás“ íslenskra fyrirtækja og ævintýralegurvöxtur þármálastofnana þótti til mestu fyrirmyndar. „Islensku fyrirtækin sem leitt hafa útrásina á undanförnum árum byggja öll meira eða minna á þeim kostum og einkennum sem við teljum olckur hafa sem þjóð í augum útlendinga“, segir t.d. í skýrslu framtíðarhóps Viðskiptaráðs íslands sem út kom árið 2006. „Við erum lítil, vel tengd innbyrðis, erum fljót að átta okkur á stöðu mála, erum hugmyndarík, tökum ákvarðanir strax og lærum fljótt og örugglega af reynslunni.“3 Nú, þegar íjármálafyrirtækin eru flest rústir einar og fátt situr eftir af útrásinni annað en botnlausar skuldir, hljóma slíkar yfirlýsingar heldur hjákátlega, svo ekki sé meira sagt. Það sem kemur aftur á móti á óvart er hversu margt í söguvitund Islendinga hefur staðist átök síðustu mánaða. Vissulega er nú gert góðlátlegt grín að hugmyndum um víkingaeðli Islendinga, sem var notað fyrir ekki alllöngu til að skýra það sem virtist velheppnað strandhögg íslenskra viðskiptajöfra erlendis,4 en aðrar „staðreyndir“ úr íslandssögunni lifa þó góðu lífi. „Hryllilegustu mistök frá 1262“,5 sagði Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, t.a.m. um svonefndan Icesave-samning í blaðaviðtali, og vísar þar augljóslega til þeirra „mistaka" Islendinga að ganga Noregskonungi á hönd. Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, tók undir þessa skoðun í útvarpsfréttum skömmu síðar: „Þetta er versti samningur sem ísland hefur nokkurn tíma séð sennilega síðan Gamli sáttmáli“, sagði hann. „Það er ekki flóknara en það.“6 Nú er málið auðvitað nokkuð flóknara en það. Þannig má minna á að því hefur verið haldið fram með gildum (en þó tæpast óyggjandi) rökum að sá „Gamli sáttmáli“ sem við þekkjum sé í raun alls ekki frá árinu 1262 heldur hafi varðveittir textar hans verið samdir á 15. öld til að styrkja stöðu íslendinga á þeim tíma.' Þar að auki er nokkuð djúpt í árinni tekið að lýsa hollustueiðum við Noregskonung sem „hryllilegum mistökum“. Fyrir Jóni Sigurðssyni var Gamli sáttmáli mikilvægur einmitt vegna þess að honum þótti samningurinn mjög góður, og þess vegna hélt hann sáttmálanum ákaft á loft í deilum sínum við Dani og vildi snúa aftur til þeirra landsréttinda sem honum þóttu tryggðir í hinum forna samningi.8 Þrátt fyrir að þau viðhorf sem birtist í ummælum stjórnmálamanna um „Gamla sáttmála“ eða „mistökin frá 1262“ geti tæpast talist góð sagnfræði þá eru þau mjög áhugavert hugmyndasögulegt viðfangsefni. Þannig hefur Gamli sáttmáli orðið í hugum fólks að eins konar lykilhugtaki íslandssögunnar og þar skiptir innihald meints sáttmála eða sögulegt samhengi hans litlu máli.

x

Sagnir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sagnir
https://timarit.is/publication/1025

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.